Dominic Raab, ráðherra Brexit-mála Bretlands, segir skýringar Sádi-Araba á dauða blaðamannsins Jamal Khashoggi ekki trúverðugar og að þeir sem beri ábyrgð verði að svara til saka.
„Mér finnst þetta ekki trúverðugt,“ sagði Raab í samtali við BBC. „Ég set stórt spurningarmerki við þær skýringar sem gefnar hafa verið. Raab sagði Breta styðja rannsókn tyrkneskra yfirvalda á dauða blaðamannsins og að breska ríkisstjórnin vildi að þeir sem bæru ábyrgð á morðinu svöruðu til saka.
Sádiarabíska ríkissjónvarpið hafði það eftir þarlendum yfirvöldum í gær að Khashoggi hefði látist eftir átök sem hefðu orðið í kjölfar rifrildis á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl. Fram að því hafði verið fullyrt að blaðamaðurinn hefðu yfirgefið skrifstofuna heill á húfi sama dag og hann gekk þangað inn, 2. október síðastliðinn.
Vaxandi tortyggni gætir vegna skýringa Sádi-Araba sem, en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag að þær væru ekki fullnægjandi, eftir að hafa sagt í gær að þær væru trúverðugar og mikilvægt fyrsta skref. Lík Khashoggi hefur enn ekki fundist þrátt fyrir mikla leit.
Fjölmiðlar bæði í Tyrklandi og Bandaríkjunum hafa greint frá því að tyrkneska leyniþjónustan hafi hljóðupptökur undir höndum þar sem heyrist hvar Khashoggi er pyntaður áður en hann er sviptur lífi.