„Hættulegt skref“ að rifta samkomulaginu

Rússar eru ekki mjög sáttir við yfirlýsingar Trump um að …
Rússar eru ekki mjög sáttir við yfirlýsingar Trump um að rifta afvopnunarsamningnum. AFP

Þau áform Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að rifta afvopnunarsamkomulagi við Rússa sem undirritað var árið 1987, er hættulegt skref, sagði aðstoðarmaður utanríkisráðherra Rússa við fréttamenn í Rússlandi í dag. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Þetta er hættulegt skref, sem ég er viss um að muni ekki aðeins hafa mikil áhrif í alþjóðasamfélaginu, heldur líka verða fordæmt,“ sagði Sergei Ryabkov, í samtali við TASS-fréttastofuna.

Hann sagði samkomulagið „mikilvægt fyrir alþjóðlegt öryggi og öryggi varðandi notkun kjarnorkuvopna, til að viðhalda hernaðarlegum stöðugleika“.

Rúsar fordæmdu það sem hann kallaði tilraun Bandaríkjamanna til að öðlast ákveðinn slaka í þessum málaflokki með kúgunum.

Ryabkvo sagði að ef Bandaríkin héldu áfram sýna „klaufalega og óheflaða“ hegðun, ásamt því að draga sig einhliða út úr alþjóðlegu samkomulagi ættu Rússar „ekki annarra kosta völ en að svara í sömu mynt og jafnvel nýta sér hernaðarlega tækni“. Það væri hins vegar ekki vilji Rússa.

Trump tilkynnti það í gærkvöldi að hann ætlaði að rifta svokölluðum INF-afvopnunarsamningi sem Ronald Regan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev, sem var leiðtogi Sovétríkjanna, undirrituðu í Washington árið 1987 en þeir höfðu fundað í Höfða í Reykjavík árið áður.

Sagði Trump á fundi með frétta­mönn­um að Rúss­ar hefðu „brotið gegn“ sam­komu­lag­inu sem legg­ur bann við meðallang­dræg­um eld­flaug­um. Bætti hann við að Banda­rík­in muni ekki leyfa Rúss­um að að fram­leiða slík vopn á meðan þau megi það ekki.

„Ég veit ekki af hverju Barack Obama Banda­ríkja­for­seti samdi ekki að nýju eða rifti samn­ingn­um. Þeir eru bún­ir að brjóta gegn hon­um árum sam­an,“ hafði BBC eft­ir for­set­an­um í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert