Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sagt Ítölum að taka fjárlög sín til endurskoðunar og telur að drög ríkisstjórnar Ítalíu að fjárlögum næsta árs séu „alvarlega“ á skjön við þau meðmæli sem framkvæmdastjórnin hafi veitt Ítölum. Ítalir hafa þrjár vikur til að bregðast við.
BBC greinir frá því að framkvæmdastjórnin hafi aldrei beint tilmælum sem þessum til nokkurrar ríkisstjórnar aðildarríkis Evrópusambandsins – þau séu án fordæma.
Framkvæmdastjórnin hefur áhyggjur af miklum ríkisútgjöldum sem Ítalir gera ráð fyrir á næsta ári og hefur staðið í nokkru stappi við ríkisstjórn Ítala um tilhögun ríkisfjármála upp á síðkastið. Drög að fjárlögum á Ítalíu voru kynnt fyrir skemmstu og hafa þau valdið titringi á evrópskum hlutabréfamörkuðum.
Þar sem Ítalir eru hluti af evrusvæðinu þurfa þeir að gangast undir ákveðnar hömlur hvað varðar skuldasöfnun og leggja fjárlög sín fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en hámarksfjárlagahalli evruríkjanna má vera 3% af landsframleiðslu.
Giuseppe Conte forsætisráðherra hefur lýst því yfir að fjárlagahallinn verði ekki meira en 2,4% af landsframleiðslu Ítala, samkvæmt þeim tillögum sem ráðamenn í Brussel hafa nú hafnað. Ítalskir ráðamenn telja að aukin ríkisútgjöld og skattalækkanir sem bæti hag Ítala geti aukið vöxt í hagkerfinu, sem er enn þá minna en það var í aðdraganda alþjóðakreppunnar árið 2008.
Valdis Dombrovskis, varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, segir að viðbrögð Ítala við áhyggjum ESB hafi ekki verið „nægileg“ til þess að draga úr ótta sambandsins vegna mikillar skuldasöfnunar ríkisins og að regluverk evrusvæðisins eigi við um alla – Ítalir séu ekki undanskildir því. Hann bendir á að ítalskir skattgreiðendur greiði nú jafnmikið vegna uppsafnaðra ríkisskulda og þeir greiða fyrir að halda úti menntakerfi landsins.
Luigi Di Maio, aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu, segir á Facebook-síðu sinni að þetta sé í fyrsta sinn sem Evrópusambandið fetti fingur út í fjárlög Ítala. Það þurfi ekki að koma á óvart, þar sem þetta séu fyrstu fjárlög Ítalíu sem hafi verið skrifuð í Róm, en ekki í Brussel.
„Þetta breytir ekki neinu,“ sagði Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu. „Þeir eru ekki að ráðast á ríkisstjórnina heldur fólkið. Þetta mun reita Ítali enn frekar til reiði,“ hefur BBC honum.
Skuldir ríkissjóðs Ítalíu eru á meðal þeirra hæstu innan ESB, eða ríflega 130% af landsframleiðslu, en miðað við þessi fyrstu viðbrögð Ítala við tilmælum framkvæmdastjórnar ESB virðist sem þeir ætli sér ekki að gefa eftir í þessari deilu. Þeim eru gefnar þrjár vikur til að bregðast við tilmælunum.