Franskir kennarar stíga fram í röðum á Twitter þessa dagana í kjölfar þess að franskur unglingur var ákærður fyrir ofbeldi eftir birtingu myndbandsupptöku þar sem hann sést beina gervibyssu að kennara sínum. Þar greina kennararnir frá sögum af andlegu og líkamlegu ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir við störf sín og nota myllumerkið #PasDeVague, sem mætti íslenska sem #ekkiruggabátnum.
Hundruð kennara greina frá því í þúsundum tísta að tilkynningar þeirra um hótanir, móðganir, áreitni og ofbeldi til skólastjórnenda, og jafnvel stjórnvalda, hafi ekki verið teknar alvarlega. BBC greinir frá.
Franskir fjölmiðlar líkja frásögnunum sem eins konar #metoo-byltingu kennara í opinbera menntakerfi Frakklands.
Ýmislegt virðist ganga á í lífi kennaranna. Einn þeirra greinir frá því að á hann hafi verið hrækt, honum hótað og hann laminn eftir skóladaginn. Skólastjórinn samþykkti að víkja nemandanum úr skólanum í þrjá daga. Annar kennari greinir frá því að allur bekkurinn sem hann kenndi hafi skrifað undir líflátshótun í hans garð. Sá fékk engan stuðning frá skólayfirvöldum.
#PasDeVague snýst ekki um andúð á nemendum, heldur um um reiði og örvæntingu kennara í skólum þar sem skólastjórnendur eru ófærir um að takast á við félagsleg vandamál.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur einnig tjáð sig um málið á Twitter og segir hótanir gegn kennurum óásættanlegar. Þá biðlaði hann til stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að sökudólgum yrði refsað.