Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, ásakar Donald Trump Bandaríkjaforseta um að beinlínis ljúga að fólki. Hann gerði alvarlegar athugasemdir við stjórnarhætti og orðræðu forsetans er hann ávarpaði kjósendur í Milwaukee og Detroit í gær.
„Það sem var áður óséð, í það minnsta á síðustu tímum, eru stjórnmálamenn sem hreint út, blygðunarlaust, ítrekað og án þess að svo mikið sem skammast sín ljúga. Skálda hluti frá grunni,“ sagði Obama í ræðu sinni. Þótti ljóst að þetta ætti við Trump, þó að hann passaði að nefna hann ekki á nafn.
Til stuðnings máli sínu nefndi Obama að forsetinn hefði lofað skattalækkunum fyrir millistétt fyrir kosningarnar sem verða í þarnæstu viku, svonefndar miðkjörtímabilskosningar í Bandaríkjunum. Hængurinn á því loforði Trumps var þá sá að honum gæfist aldrei rúm til að efna það enda þingið ekki að störfum fyrr en eftir kosningar.
Það er að vonum hart tekist á um ýmis mál vestanhafs um þessar mundir enda minna en tvær vikur til kosninga. Í þessum kosningum, sem eru alltaf um miðbik kjörtímabils forseta, er kosið um allt mögulegt; allt frá atkvæðagreiðslu um einstök mál til kosningar kjörinna fulltrúa, svo sem dómara.
Hér er myndskeið frá Guardian, hluti ávarps Obama.