„Ég mun ekki sækjast eftir pólitísku embætti þegar kjörtímabilinu lýkur,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, samkvæmt BBC á blaðamannafundi í Berlín í dag. Þar með hefur hún staðfest að hún muni ekki sækjast eftir endurkjöri þegar kjörtímabilinu lýkur 2021.
Yfirlýsing Merkel er tengd við slæmt gengi hægriflokks hennar, Sambandsflokks kristilegra demókrata (CDU), í Hesse. Bæði flokkur Merkel og samstarfsflokkur þeirra í ríkisstjórn, flokkur jafnaðarmanna, töpuðu tíu prósentustigum í kosningunum í Hesse í gær.
Fylgistapið í Hesse er aðeins síðasta dæmið í röð kosninga þar sem flokkur hennar hefur tapað fylgi og sagðist Merkel í dag bera ábyrgð á slæmu gengi flokksins. Þá fullyrti hún að hún myndi ekki hafa nein afskipti þegar kemur að vali á arftaka hennar.
Merkel hlaut kjör formanns í Sambandsflokki kristilegra demókrata (CDU) árið 2000 og varð kanslari 2005.