Donald Trump Bandaríkjaforseti var með þrisvar sinnum meiri frjálsan tíma skráðan í dagbók sína síðasta þriðjudag, heldur en vinnustundir. Alls voru níu tímar áætlaðir fyrir svo nefndan „stjórnendatíma“ — veigrunarorð sem starfsmannastjórinn John Kelly kom með yfir þann tíma forsetans sem er óbókaður.
Þetta er sá tími sem Trump notar til að senda Twitter-skilaboð, hringja í vini og horfa á sjónvarpið, að sögn stjórnmálafréttavefjarins Politicio. Þennan dag voru ekki voru nema þrír tímar áætlaðir fyrir fundi með embættismönnum, fundi um stefnumótun, opinberar móttökur, eða aðra slíka atburði sem venjulega taka yfir mikinn tíma þeirra sem gegna forsetaembættinu.
Þennan dag voru 30 mínútur fráteknar fyrir símtöl við framkvæmdastjóra og stutta tölu sem forsetinn flutti á leiðtogaráðstefnu. Þá fékk Trump skýrslu frá yfirmönnum hersins yfir kvöldverði, auk þess sem hann átti fund með starfsmannastjóranum klukkan hálftólf um morguninn, en það var fyrsta skráða verkefni dagsins. Utan þessa var dagurinn óbókaður.
Politico segir forsetann vissulega hafa haft meiri frítíma þennan þriðjudag en aðra daga í vikunni. Staðreyndin sé engu að síður sú að dagskrá forsetans þennan dag hafi ekki verið neitt einstök, enda hafi Trump sætt gagnrýni sl. ár fyrir stjórnendatímann og fyrir að byrja vinnudaginn sífellt seinna. Forverar hans í embætti hafi verið agaðir í vinnu og setið fund eftir fund, tekið þátt í viðburði eftir viðburð allt frá því upphafi til loka vinnudags. Trump sé hins vegar að endurskilgreina forsetahlutverkið.
Segir Politico stjórnendatímann hafa mikil áhrif á forsetatíð Trumps, enda geri hann honum kleift að stjórna landinu með duttlungum og hverju því sem grípi áhuga hans þá stundina.
„Tími forsetans er að mörgu leyti hans dýrmætasta söluvara, af því að hann er takmarkaður,“ hefur Politico eftir Mack McLarty, sem var starfsmannastjóri í Hvíta húsinu á fyrstu forsetaárum Bill Clinton. „Hann endurspeglar forgangsröðun hans og hverju hann er að reyna að koma í verk fyrir landið.“
Sá mikli lausi tími sem er í dagskrá Trumps gerir honum hins vegar kleift að gera það sem hann vill.
Trump er ekki fyrsti forsetinn með óskipulagða dagskrá og voru til að mynda bæði Clinton og Jimmy Carter þekktir fyrir nætursímtöl sín. Vissulega hafa fyrri forsetar líka fylgt mismunandi dagskrá, þannig var George W. Bush t.d. morgunhani á meðan að Barack Obama var náttugla. Það sem einkennir forsetatíð Trumps er hins vegar stjórnendatíminn, það viðurkenni jafnvel þeir stuðningsmenn hans sem segja Trump stöðugt vera í vinnunni. Fyrir vikið stjórni skammtíma grýlur líka stefnumálum forsetans í stað langtíma sýnar.
„Hann á það til að lesa eitthvað í blaðinu og um leið fær maður boð á fund um viðskiptamál,“ segir heimildamaður sem er kunnugur dagskrá forsetans. „Það er án þess undirbúnings sem mánaðar fyrirvari til að vinna að stefnumálum veitir.“
Sumir aðstoðarmenn forsetans fullyrða að hann sé mjög afkastamikill yfir stjórnendatímann. Þann tíma nýti hann til að hringja í þingmenn, ráðherra og leiðtoga annarra ríkja, auk þess sem hann bóki þá fundi og því fari fjarri að hann sé bara að horfa á sjónvarpið. Fullyrti einn aðstoðarmannanna raunar að Trump væri vinnualki.
Í síðustu viku hóf forsetinn engu að síður aldrei störf fyrr en ellefu á morgnana og á þriðjudag, þegar leit að hinum seka í bréfasprengjumálinu var í fullum gangi og ekki nema hálfur mánuður til þingkosninga, hóf Trump ekki störf fyrr en eitt eftir hádegi.
Þá segir Politico dagskrá forsetans sýna að hann eyði meiri tíma í að koma fram, t.d. við athafnir þar sem undirritunar er krafist og í fjölmiðlaviðtöl, heldur en hann geri við stefnumótun.
Mikill hluti tíma Trumps í síðustu viku fór raunar í ferðalög milli kosningafunda fyrir frambjóðendur Repúblikanaflokkinn vegna kosninganna í næstu viku. Síðasta miðvikudag hóf hann störf klukkan hálftólf með því að funda með Kelly, því næst flutti hann stutta yfirlýsingu um ópíóðavandann, fór í eitt viðtal og hélt að því loknu til Wisconsin til að taka þátt í kosningafundi. Að öðru leyti var dagurinn óbókaður.
Politico segir raunar vekja athygli hversu lítill hluti af tíma forsetans í síðustu viku hafi farið í stefnumótun. Einungis tveimur klukkutímum hafi verið eytt í slík verkefni alla vikuna, auk þess var einungis gert ráð fyrir að Trump fengi daglegt forsetayfirlit tvo af fimm dögum vinnuvikunnar.
Mona Sutphen, sem var starfsmannastjóri Obama á árunum 2009-2011 segir dagskrá hans jafnan hafa verið þéttskipulagða alla daga. Ég myndi segja að vinnuálagið hafi verið verulega ólíkt, hefur Politico eftir Sutphen. Arftaki hennar í starfi, Nancy-Ann DeParle, segir 6-7 stundir daglega jafnan hafa farið í fundi vegna stefnumótunarvinnu.
„Ef forsetinn hefði tekið sér níu tíma stjórnendatíma þá hefðum við sagt að forsetinn væri fjarverandi þann daginn,“ sagði einn aðstoðarmanna Obama í Hvíta húsinu sem ekki vildi láta nafns síns getið.
Fyrir aðstoðarmenn Trumps hefur frá upphafi hins vegar reynst erfitt að skipuleggja dagskrá forsetans. Hann er vanur að stjórna sínum málum að mestu í gegnum síma af skrifstofu sinni í Trump turninum og er því sagður hafa orðið argur yfir þéttskipaðri fundadagskrá sem hélt honum fjarri símanum og sjónvarpinu að sögn nokkurra núverandi og fyrrverandi aðstoðarmanna.
Er Kelly sagður hafa fundið upp hugtakið „stjórnendatími“ til að bregðast við kvörtunum Trumps um ofhlaðna dagskrá fyrrverandi starfsmannastjórans, Reince Priebus. Honum „fannst hann ekki hafa neinn tíma til að hugsa,“ segir einn aðstoðarmannanna.
„Þessi togstreita var stöðugt til staðar í stjórninni þegar Priebus var þar. Ef það var of mikið á dagskránni þá kvartaði hann, en ef það voru of fá atriðið á dagskránni þá kvartaði ríkisstjórninni af því að þá gat hann gert það sem hann vildi. Eytt meiri tíma í að horfa á sjónvarpið, hringja í fólk eða boða aðstoðarmenn á fundi á forsetaskrifstofunni sem ekki voru á dagskrá,“ sagði einn fyrrverandi aðstoðarmannanna sem þekkir vel til.
Politico segir hins vegar óljóst hversu miklu af stjórnendatímanum Trump verji í vinnu eða undirbúning en ekki í sjónvarpsáhorf, Twitter-skilaboð, eða slúður og spjall við vini og bandamenn.
Aðstoðarmenn forsetans sögðu hann hafa fengið upplýsingar frá alríkislögreglunni um bréfasprengjurnar utan hefðbundinnar dagskrá og eins er samræður hans við Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, hvergi að finna á dagskránni.
Mikill fjöldi þeirra Twitter-skilaboða sem Trump sendir frá sér, og sem eiga rætur sínar í fréttaflutningi sjónvarpsstöðva, eru hins vegar send út á stjórnendatímanum. Það var til að mynda á slíkri stundu sem Trump kvartaði yfir að fréttaflutningur af bréfasprengjunum drekkti umfjöllun um þingkosningarnar. „Repúblikönum er búið að ganga svo vel,“ sagði Trump á Twitter. „Nú kemur þetta sprengjudót og meðbyrinn minnkar,“ bætti hann við. Þetta væri óheppilegt og repúblikanar þurfi að drífa sig á kjörstað.
Það var einnig yfir stjórnendatíma sem hann kvartaði yfir frétt sem birt var í New York Times, þar sem greint var frá því að kínverskar og rússneskar leyniþjónustustofnanir hleruðu reglulega óvarin símtöl forsetans. Sagði Trump að þessi „langa og leiðinlega grein“ væri svo röng að hann hefði ekki tíma til að leiðrétta hana.
„Ólíkir forsetar eyða tíma sínum með mismunandi hætti og það er vit í því að dagskráin endurspegli hans val með einhverjum hætti,“ segir Yuval Levin, aðstoðarforstjóri siðfræði- og hagfræðimiðstöðvar sem var ráðgjafi Bush yngri í innanríkismálum.
„Skortur á formgerð veldur því hins vegar að verulega erfitt getur verið að taka skipulagðar ákvarðanir út af þeim kröfum sem starfið leggur á mann,“ sagði hann. „„Stjórnenda“ er líka síðasta orðið sem ég myndi nota yfir þennan frjálsa tíma.“