Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist gera ráð fyrir því að senda allt að 15 þúsund hermenn að landamærum Mexíkó til að stöðva för fólks sem hann segir vera hættulegan hóp hælisleitenda. Talið er að allt að 7.000 manns séu í hópnum sem gengið hefur frá Hondúras í gegnum Gvatemala og Mexíkó síðustu vikurnar í þeim tilgangi að komast til Bandaríkjanna. Fólkið kemur flest frá Hondúras og er að flýja ofbeldi og fátækt í heimalandinu. AFP-fréttastofan greinir frá.
Nú þegar hafa 5.000 hermenn verið sendir að landamærunum og Trump sagði við fréttamenn í dag að búast mætti við því að fleiri yrðu sendir, jafnvel 10 til 15 þúsund.
„Þetta er hættulegur hópur fólks,“ sagði Trump um fólkið. „Þau koma ekki inn í landið okkar,“ bætti hann við.
Forsetinn hefur ítrekað sagt, bæði á Twitter og á fjöldafundum, að fjöldi liðsmanna glæpagengja og annað vont fólk sé í hópnum. Þá hefur hann sakað demókrata um að borga fólkinu háar fjárhæðir fyrir að koma að landamærunum í kringum þingkosningar sem fara fram í næstu viku. Trump hefur einnig varað fólkið sjálft við því að halda göngunni áfram. „Vinsamlegast snúið við. Ykkur verður ekki hleypt inn til Bandaríkjanna nema þið farið lagalegu leiðina. Þetta er innrás í land okkar og her okkar bíður eftir ykkur!“ sagði hann í vikunni.