Vill afnema ákvæði um ríkisborgararétt barna

7.000 manns hafa gengið í tveimur hópum um Mið-Ameríku til …
7.000 manns hafa gengið í tveimur hópum um Mið-Ameríku til Mexíkó og stefna að landamærum Bandaríkjanna. Annar hópurinn er í suðurhluta Mexíkó. Hinn hópurinn er við landamæri Mexíkó og Gvatemala. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst gefa út tilskipun sem hann segir að muni afnema ákvæði fjórtánda viðauka stjórnarskrár landsins um að öll börn sem fæðast þar fái sjálfkrafa ríkisborgararétt í landinu. Hægriblaðið The Wall Street Journal segir að nær allir stjórnlagasérfræðingar í Bandaríkjunum telji að slík tilskipun frá forsetanum samrýmist ekki stjórnarskránni.

Í fjórtánda viðauka stjórnarskrárinnar segir að allir þeir, sem fæddir eru í landinu, séu ríkisborgarar Bandaríkjanna og ríkisins þar sem þeir eiga búsetu.

The Wall Street Journal segir að mjög erfitt sé að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar. Til þess þurfi tveir þriðju beggja þingdeildanna í Washington að samþykkja breytinguna og minnst þrjú af hverjum fjórum sambandsríkjum þurfi síðan að staðfesta hana. Einnig sé hægt að breyta stjórnarkránni með stjórnlagaþingi ef minnst tvö af hverjum þremur sambandsríkjum óska eftir því.

Rúmlega 7.000 manns stefna að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna samkvæmt …
Rúmlega 7.000 manns stefna að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. Kort/AFP

Ákvæðið um að öll börn, einnig börn ólöglegra innflytjenda, fái sjálfkrafa ríkisborgarétt í Bandaríkjunum hefur lengi verið umdeilt en þingið í Washington hefur ekki reynt að breyta því. Trump kvaðst hafa ráðfært sig við sérfræðinga sína og þeir hefðu sagt að hann gæti afnumið ákvæðið sjálfur með tilskipun án samþykkis þingsins.

„Hann getur þetta ekki,“ hefur The Wall Street Journal eftir Lauru K. Donohue, stjórnlagasérfræðingi við Georgetown University. „Með því væri hann í raun að segja að hann væri hafinn yfir stjórnarskrána.“

Trump boðaði tilskipun um afnám ákvæðisins í viðtali sem fréttamiðillinn Axios birti í gær. „Þetta er í vinnslu. Það gerist, með tilskipun,“ sagði forsetinn. Hann bætti við að ákvæðið væri „fáránlegt“ og fullyrti að Bandaríkin væru eina landið sem veitti börnum ólöglegra innflytjenda sjálfkrafa ríkisborgararétt við fæðingu í landinu. Að sögn fréttaveitunnar AFP er þetta ekki rétt því að hátt í 30 lönd veita öllum börnum slíkan rétt við fæðingu, þeirra á meðal Kanada.

Kort/AFP

Ólöglegir innflytjendur eignuðust alls um 275.000 börn í Bandaríkjunum árið 2014. Þau voru um 7% af öllum börnum sem fæddust þar það ár, að sögn Pew-rannsóknastofnunarinnar.

Hermenn sendir að landamærunum

Trump hefur lagt áherslu á innflytjendamál í yfirlýsingum sínum í aðdraganda þingkosninganna í Bandaríkjunum á þriðjudaginn kemur. Yfirlýsingar hans hafa aðallega snúist um 7.000 manns sem hafa gengið í tveimur hópum um Mið-Ameríku til Mexíkó og stefna að landamærum Bandaríkjanna. Forsetinn hefur fullyrt að á meðal fólksins séu „margir glæpamenn og óþekktir Mið-Austurlandamenn“ án þess að geta þess hvaðan hann fær þær upplýsingar, að sögn The Wall Street Journal. Blaðið segir að margir Mið-Ameríkumannanna séu að flýja ofbeldi glæpahópa í heimalandi sínu.

Um 2.000 bandarískir þjóðvarðliðar auk landamæravarða eru nú við landamæri …
Um 2.000 bandarískir þjóðvarðliðar auk landamæravarða eru nú við landamæri Mexíkó að Bandaríkjunum. AFP

„Þetta er innrás í landið okkar og herinn bíður eftir ykkur,“ sagði Trump um flóttafólkið í tísti á Twitter á mánudagsmorgun. Síðar um daginn var skýrt frá því að 5.200 bandarískir hermenn yrðu sendir að landamærunum. Fyrir eru þar um 2.000 bandarískir þjóðvarðliðar, auk landamæravarða.

Annar hópurinn, um 4.000 manns, er í suðurhluta Mexíkó, rúmlega 1.400 kílómetra frá landamærunum að Bandaríkjunum. Hinn hópurinn, 3.000 manns, er við landamæri Mexíkó og Gvatemala. Búist er við að gangan að landamærum Bandaríkjanna taki nokkrar vikur í viðbót.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert