Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, greindi bandarískum stjórnvöldum frá því að hann teldi blaðamanninn Jamal Khashoggi, sem var myrtur fyrir um einum mánuði síðan á ræðismannsskrifstofu landsins í borginni Istanbúl í Tyrklandi, vera hættulegan íslamista.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að krónprinsinn hafi greint frá þessu í símtali við bandaríska ráðamenn sem átt hafi sér stað áður en stjórnvöld í Sádi-Arabíu viðurkenndu að hann Khashoggi hefði verið myrtur á ræðismannsskrifstofunni.
Bandarísku dagblöðin Washington Post og New York Times fjalla um málið í dag en stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa vísað fréttum þeirra á bug. Lík Khashoggis hefur ekki fundist en vitað er að það var sundurlimað eftir að blaðamaðurinn hafði verið kyrktur.
Ráðamenn í Sádi-Arabíu hafa hafnað því að konungsfjölskylda landsins hafi verið viðriðin málið en Khashoggi gagnrýndi hana, og einkum krónprinsinn, harðlega í skrifum sínum. Hafa sádiarabísk stjórnvöld heitið því að komist verði að hinu sanna í málinu.
Krónprinsinn ræddi við Jared Kushner, tengdason Donalds Trump Bandaríkjaforseta, og John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa forsetans 9. október, viku eftir að Khashoggi hvarf. Sagði hann að Khashoggi hefði verið félagi í íslamistasamtökunum Bræðralag múslima.
Hvatti krónprinsinn einnig til þess að staðinn yrði vörður um bandalag Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu. New York Times hefur eftir vinum Khashoggis að hann hafi gengið til liðs við Bræðralag múslima sem ungur maður en síðar hætt þátttöku í samtökunum.