Þjóðaratkvæði um störf Trumps

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á kosningafundi í Missouri-ríki í gær.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á kosningafundi í Missouri-ríki í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti bandaríska kjósendur á kosningafundi í gær til þess að styðja Repúblikanaflokkinn í þingkosningunum sem fram fara í Bandaríkjunum í dag, en margir líta á kosningarnar sem þjóðaratkvæðagreiðslu um störf hans. Trump sagði að allt sem ríkisstjórn hans hefði unnið að væri að veði í þingkosningunum.

Kosningarnar fara fram þegar fjögurra ára kjörtímabil Trumps er hálfnað og niðurstöður þeirra munu hafa mikil áhrif á það hversu vel honum mun ganga að koma stefnumálum sínum í framkvæmd á síðari hluta þess. Hvort repúblikanar halda meirihlutum sínum í fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings eða hvort þeir tapa þeim.

Kosið er um 435 sæti í fulltrúadeildinni og 35 af 100 sætum í öldungadeildinni. Ennfremur er kosið um ríkisstjóra í 36 af 50 ríkjum Bandaríkjanna. Haldi repúblikanar meirihluta sínum styrkir það stöðu Trumps. Forsetinn hefur að undanförnu reynt að nýta sér umdeild mál, eins og innflytjendamálin, til þess að auka fylgi Repúblikanaflokksins.

Kosningarnar „þær mikilvægustu á lífstíð okkar“

Forveri Trumps, Barack Obama, hefur tekið virkan þátt í kosningabaráttu Demókrataflokksins og hefur meðal annars látið þau orð falla að sjálfur persónuleiki Bandaríkjanna væri að veði í þingkosningunum. Sagði forsetinn fyrrverandi ennfremur á Twitter-síðu sinni í gær að kosningarnar væru hugsanlega „þær mikilvægustu á lífstíð okkar.“

Frá kosningafundi Trumps í Indiana-ríki í gær.
Frá kosningafundi Trumps í Indiana-ríki í gær. AFP

Takist Demókrataflokknum að ná meirihluta í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni gæti hann staðið í vegi fyrir mörgum áformum Trumps. Skoðanakannanir benda til þess að demókratar nái þeim 23 sætum sem þeir þurfa til þess að ná meirihluta og mögulega fimmtán sætum að auki en nái ekki meirihluta í öldungadeildinni.

Trump hefur sem fyrr segir lagt meðal annars áherslu á innflytjendamálin og sagt að demókratar muni hleypa fleiri ólöglegum innflytjendum til Bandaríkjanna. Þá hefur hann sagt að demókratar eigi eftir að skaða efnahag landsins sigri þeir í kosningunum. Demókratar hafa hins vegar einkum lagt áherslu á heilbrigðismál og jafnréttismál.

Búist við meiri kjörsókn en fyrir fjórum árum

Demókratar vonast einkum til þess að yngri kjósendur og kjósendur úr minnihlutahópum skili sér á kjörstað og mótmæli stefnu Trumps með því að kjósa þá. Trump hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir harða stefnu sína í ýmsum málum og sagði hann við fjölmiðla í gær að hugsanlega hefði hann átt að nálgast sum mál með mýkri hætti.

Talið er að kosningaþátttaka verði mikil í þingkosningunum en opinberar tölur herma að um 34,2 milljónir kjósenda hafi kosið utankjörfundar en sú tala er talin vera nokkuð hærri. Til samanburðar voru utankjörfundaratkvæði 27,5 milljónir í kosningunum fyrir fjórum árum. Utankjörfundaratkvæði í Texas-ríki eru fleiri en öll atkvæði 2014.

Hins vegar er talið að veðurfar geti sett strik í reikninginn varðandi kjörsókn. Spáð er þrumuveðri á austurströnd Bandaríkjanna í dag og hríðarveðri í miðríkjunum. Veðrið gæti bæði haft áhrif mikil áhrif á fylgi Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins. Fyrstu kjörstöðum lokar klukkan 23:00 í kvöld að íslenskum tíma. 

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu í dag.

Bandaríska þinghúsið í Washington.
Bandaríska þinghúsið í Washington. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert