Trump segist móðgaður út í Macron

Forsetahjónin Donald og Melania Trump stíga út úr flugvél sinni …
Forsetahjónin Donald og Melania Trump stíga út úr flugvél sinni í París í kvöld. AFP

Tillögur Emmanuels Macron Frakklandsforseta um sameiginlegan Evrópuher eru „mjög móðgandi“ að mati Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem er nýlentur í París þar sem hann mun taka þátt í friðarráðstefnu og minningarathöfn í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldar.

„Við verðum að verja okk­ur sjálf með til­liti til Kína, Rúss­lands og jafn­vel Banda­ríkj­anna,“ sagði Macron fyrr í vikunni – og það fer ekki vel í Trump.

Nánast um leið og flugvél hans lenti í París í kvöld tísti Bandaríkjaforseti um þessi orð franska forsetans og sagði það móðgandi að Macron léti það út úr sér að mögulega teldi hann Evrópu þurfa að verja sig fyrir Bandaríkjamönnum.

„Mjög móðgandi, en kannski Evrópa ætti fyrst að borga sanngjarnan hluta af Atlantshafsbandalaginu, með Bandaríkin niðurgreiða stórkostlega,“ skrifaði Bandaríkjaforseti, augljóslega ósáttur með orð Macrons, sem féllu er Trump sjálfur hafði í nógu að snúast heima fyrir vegna kosninganna í Bandaríkjunum á þriðjudag.

Emmanuel Macron forseti Frakklands á fundi í París í dag.
Emmanuel Macron forseti Frakklands á fundi í París í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka