Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt í dag áfram árásum sínum á Emmanuel Macron Frakklandsforseta vegna tillögu þess síðarnefnda um að stofna þyrfti sérstakan Evrópuher.
„Emmanuel Macron leggur til að [Evrópa] stofni eigin her til að verja Evrópu gegn Bandaríkjunum, Kína og Rússlandi, en það var Þýskaland í heimsstyrjöldinni fyrri og síðari og hvernig virkaði það fyrir Frakkland?“ sagði forsetinn á uppáhaldssamskiptamiðli sínum Twitter. „Þeir voru byrjaðir að læra þýsku í París áður en Bandaríkin mættu á svæðið. Borgið fyrir NATO eða sleppið þessu!“
Emmanuel Macron suggests building its own army to protect Europe against the U.S., China and Russia. But it was Germany in World Wars One & Two - How did that work out for France? They were starting to learn German in Paris before the U.S. came along. Pay for NATO or not!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 13, 2018
Tillaga Macrons um að Evrópa ætti að íhuga að stofna sameiginlegan Evrópuher vakti reiði Trumps um helgina og hefur hann áður sagt þau vera móðgandi og að Evrópa ætti fyrst að borga „sanngjarnan hluta af Atlantshafsbandalaginu“ sem Bandaríkin „niðurgreiði stórkostlega“.
„Við verðum að verja okkur sjálf með tilliti til Kína, Rússlands og jafnvel Bandaríkjanna,“ eru þau orð Macrons sem vöktu reiði Bandaríkjaforseta.