Vill að ESB verði heimsveldi

Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands.
Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands. AFP

Fjár­málaráðherra Frakk­lands, Bruno Le Maire, seg­ir í sam­tali við þýska viðskipta­blaðið Hand­els­blatt að nauðsyn­legt sé að Evr­ópu­sam­bandið verði að heimsveldi eins og Kína og Banda­rík­in. Völd séu það sem máli skipti í heim­in­um í dag.

Fram kem­ur í viðtal­inu að Le Maire vilji að Evr­ópu­sam­bandið verði heimsveldi sem byggi á rétt­ar­rík­inu og leggi áherslu á græn­an hag­vöxt. Hvorki Banda­rík­in, sem ætli ekki að vera með í lofts­lags­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna, né Kína leggi áherslu á um­hverf­is­mál. Spurður hvers vegna hann noti orðið heimsveldi sem geti stuðað marga svar­ar hann:

„Ég nota hug­takið til þess að vekja fólk til um­hugs­un­ar um að völd skipta máli í heimi morg­undags­ins. Völd munu skipta öllu máli: tækni­leg­ir, efna­hags­leg­ir, fjár­mála­leg­ir, pen­inga­leg­ir, menn­ing­ar­leg­ir yf­ir­burðir munu vera í lyk­il­hlut­verki. Evr­ópu­sam­bandið ætti ekki leng­ur að vera hrætt við að beita valdi sínu og vera heimsveldi friðar.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem for­ystumaður inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins ræðir um það með þess­um hætti en José Manu­el Barroso, þáver­andi for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar sam­bands­ins, sagði á blaðamanna­fundi árið 2007 að hann liti á það sem heimsveldi.

„Stund­um líki ég upp­bygg­ingu Evr­ópu­sam­bands­ins við skipu­lag heimsveld­is. Vegna þess að við höf­um stærð heimsveld­is.“ Hann bætti við að fyrri heimsveldi hefðu hins veg­ar yf­ir­leitt verið sköpuð með vopna­valdi en ekki með friðsöm­um hætti.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert