Fjármálaráðherra Frakklands, Bruno Le Maire, segir í samtali við þýska viðskiptablaðið Handelsblatt að nauðsynlegt sé að Evrópusambandið verði að heimsveldi eins og Kína og Bandaríkin. Völd séu það sem máli skipti í heiminum í dag.
Fram kemur í viðtalinu að Le Maire vilji að Evrópusambandið verði heimsveldi sem byggi á réttarríkinu og leggi áherslu á grænan hagvöxt. Hvorki Bandaríkin, sem ætli ekki að vera með í loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna, né Kína leggi áherslu á umhverfismál. Spurður hvers vegna hann noti orðið heimsveldi sem geti stuðað marga svarar hann:
„Ég nota hugtakið til þess að vekja fólk til umhugsunar um að völd skipta máli í heimi morgundagsins. Völd munu skipta öllu máli: tæknilegir, efnahagslegir, fjármálalegir, peningalegir, menningarlegir yfirburðir munu vera í lykilhlutverki. Evrópusambandið ætti ekki lengur að vera hrætt við að beita valdi sínu og vera heimsveldi friðar.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem forystumaður innan Evrópusambandsins ræðir um það með þessum hætti en José Manuel Barroso, þáverandi forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, sagði á blaðamannafundi árið 2007 að hann liti á það sem heimsveldi.
„Stundum líki ég uppbyggingu Evrópusambandsins við skipulag heimsveldis. Vegna þess að við höfum stærð heimsveldis.“ Hann bætti við að fyrri heimsveldi hefðu hins vegar yfirleitt verið sköpuð með vopnavaldi en ekki með friðsömum hætti.