Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hvetur til þess að Frakkar og Þjóðverjar taki höndum saman um að styrkja stöðu Evrópu svo hægt sé að koma í veg fyrir ringulreið í heiminum. Macron og kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hafa að undanförnu nýtt sér samkomur í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldar til að boða sameiningu gegn lýðskrumi og þjóðernishreyfingum í Evrópu og einangrunarstefnu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna.
Kosningar fara fram til Evrópuþingsins eftir hálft ár og er búist við því að þjóðernishreyfingar sæki þar á. Macron biðlaði til sameiningar Evrópu og samstarfs við Þjóðverja þegar hann ávarpaði þýska þingið í gær.
Macron segir að Evrópa hafi verið fremst í flokki varðandi græna orkukosti og í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. Samstarf skipti miklu þegar komi að viðskiptum, öryggi, flóttafólki og umhverfismálum. Macron var í gær fyrsti forseti Frakklands til þess að ávarpa þýska þingið í 18 ár.
Merkel tók undir með Macron og mikilvægi þess að Evrópa standi saman á þeim krossgötum sem hún sé á um þessar mundir.
Í síðustu viku dró Trump ríkin tvö sundur og saman í háði á Twitter þar sem hann sagði meðal annars að það hafi verið Þýskaland í fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Hvaða áhrif hafði það á Frakkland? spurði Trump meðal annars.
Emmanuel Macron suggests building its own army to protect Europe against the U.S., China and Russia. But it was Germany in World Wars One & Two - How did that work out for France? They were starting to learn German in Paris before the U.S. came along. Pay for NATO or not!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 13, 2018
On Trade, France makes excellent wine, but so does the U.S. The problem is that France makes it very hard for the U.S. to sell its wines into France, and charges big Tariffs, whereas the U.S. makes it easy for French wines, and charges very small Tariffs. Not fair, must change!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 13, 2018
Vinsældir Macron hafa dalað mjög í heimalandinu og þar hefur fólk mótmælt víða hækkun á eldsneytisverði. Um er að ræða mótmæli sem ganga undir nafninu „gulu vestin“ (gilets jaunes) og er talið að yfir 300 þúsund hafi tekið þátt í mótmælum um helgina.
Staðan er síst betri fyrir Merkel og þrátt fyrir að hún ætli sér að sitja á valdastóli til loka kjörtímabilsins 2021 þá efast margir um að það sé raunhæft fyrir hana miðað við óvinsældir hennar.