Líklega kæfð af þáverandi kærasta

Narumi Kurosaki hvarf 4. desember 2016.
Narumi Kurosaki hvarf 4. desember 2016. AFP

Ung japönsk kona sem hvarf þegar hún var í námi í Frakklandi árið 2016 er talin hafa verið myrt af þáverandi kærasta sínum. Sá var aðstoðarkennari en flúði til heimalandsins, Chile, eftir að Narumi Kurosaki hvarf sporlaust 4. desember.

Saksóknarar í Frakklandi telja líklegast að Kurosaki hafi verið kæfð, en ekkert blóð fannst í herbergi hennar, þaðan sem nágrannar hennar höfðu heyrt læti og stympingar um nóttina. Ekkert þykir þó sannað í þessum efnum, en lík Kurosaki hefur ekki fundist þrátt fyrir ítarlega leit.

Nicolas Zepeda, chileskur þáverandi kærasti Kurosaki, hafði nokkrum mánuðum áður birt af sér myndskeið þar sem hann hótaði Kurosaki og hefur málið því verið rannsakað sem morð.

Saksóknarinn Etienne Manteaux á blaðamannafundi vegna málsins í dag.
Saksóknarinn Etienne Manteaux á blaðamannafundi vegna málsins í dag. AFP

Sannað þykir að Zepeda hafi enn verið í Frakklandi þegar Kurosaki hvarf, en hann flúði heim til Chile skömmu seinna. Alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum var gefin út af yfirvöldum í Frakklandi, en stjórnvöld í Chile fóru ekki að þeim fyrirmælum.

Franskir saksóknarar hafa óskað eftir því að fá að senda fulltrúa til Chile til þess að yfirheyra Zepeda, sem hefur ítrekað neitað sök. Ólíklegt þykir að frönsk yfirvöld óski eftir framsali, en möguleiki er á að Zepeda verði sóttur til saka í heimalandinu, ellegar saksóttur og dæmdur í Frakklandi án þess að vera viðstaddur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert