Neita að fara í land

AFP

Tugir örvæntingarfullra flóttamanna sem  bjargað var um borð í flutningaskip á Miðjarðarhafi segjast frekar deyja en fara í land í Líbýu. Þar var þeim haldið föngnum og pyntaðir af smyglurum áður en þeir lögðu af stað yfir hafið.

Blaðamenn hafa rætt við flóttafólkið sem komið var með til hafnar 10. nóvember í Misrata eftir að hafa verið bjargað af báti fyrir utan vesturströnd Líbýu. Fólkið er frá ríkjum sunnan Sahara og Suður-Asíu.

Fjórtán manns, þar á meðal fylgdarlaus börn og móðir með smábarn, fóru frá borði á miðvikudag og voru fluttir í varðhald í Líbýu samkvæmt frétt al-Jazeera. 77 eru enn um borð í skipinu.

Hjálparstarfsmenn á vegum Lækna án landamæra (MSF) hafa veitt þeim læknishjálp, svo sem gert að brunasárum og fleira. Þeir segja fólkið sem enn er um borð í flutningaskipinu örvæntingarfullt um hvað bíði þess. Flóttafólkinu var bjargað um borð í flutningaskipið Nivin, sem siglir undir fána Panama, 8. nóvember. 

Samkvæmt upplýsingum AFP-fréttastofunnar frá Sameinuðu þjóðunum er fólkið frá Eþíópíu, Erítreu, Suður-Súdan, Pakistan, Bangladess og Sómalíu.

Mbl.is hefur undanfarið fjallað um flóttafólk sem er á Sikiley en þangað kom það frá Líbýu. Landi sem er líkt við helvíti á jörðu.

„Hvers vegna viljið þið að ég yfirgefi skipið og fari til Líbýu?“ spyr Biktor, sem er 17 ára drengur frá Súdan, þegar Reuters-fréttastofan ræddi við hann í síðustu viku. „Við samþykkjum að fara hvert sem er annað en til Líbýu.“

Biktor segir að bróðir hans og vinur hafi báðir dáið í höndum smyglara í Bani Walid, en það er miðstöð smyglara í höfuðborg Líbýu, Trípolí. 

Aðrir úr hópi flóttafólksins segja í viðtali við al-Jazeera að þeir hafi talið að þeir yrðu fluttir til Möltu þegar þeir fóru um borð í flutningaskipið. Fólkið vilji frekar deyja en fara í land í Líbýu.

Mannúðarsamtökin Amnesty International sendu frá sér tilkynningu vegna þessa á föstudag þar sem fram kemur að ekki eigi að þvinga fólk sem er bjargað til þess að fara í land í Líbýu þar sem það er sett í varðhald. Samkvæmt alþjóðalögum á ekki að senda fólk á staði þar sem líf þess er í hættu. 

BBC fjallar um málið 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert