Lifðu af 84 hæða fall í lyftu

875 North Michigan Avenue, sem gekk áður undir nafninu John …
875 North Michigan Avenue, sem gekk áður undir nafninu John Hancock Center, er fjórða hæsta bygging Chicago. Ljósmynd/E. Kvelland/Wikipedia

Gríðarleg hræðsla greip um sig meðal fólks sem var inni í lyftu sem féll stjórnlaust niður 84 hæðir í Chicago. Sex einstaklingar voru í lyftunni, þar á meðal ófrísk kona. Fólkið hélt að dagar þess væru taldir en á einhvern ótrúlegan hátt lifðu þau öll af.

Atvikið átti sér stað snemma sl. föstudag í einu af háhýsum miðborgarinnar, sem gekk áður undir nafninu John Hancock Center. Fram kemur á vef BBC að lyftan hafi fallið frá 95. hæð niður á þá elleftu. Háhýsið er fjórða hæsta bygging borgarinnar og heitir nú 875 North Michigan Avenue.

Fólkið náði að senda smáskilaboð á vini sína sem kölluðu eftir aðstoð. Það tók um þrjár klukkustundir að ná þeim út úr lyftunni. 

Fram kemur á vef BBC, að talið sé að einn af vírköðlum lyftunnar hafi gefið sig. 

Hópurinn hafði verið saman á bar á 95. hæðinni og ætlaði niður í anddyrið. 

Jaime Montemayor, sem var í lyftunni ásamt eiginkonu sinni, segir að lyftan hafi farið af stað með eðlilegum hætti en svo hafi hún fallið hratt. 

Hann segir að undarleg hljóð, smellir og brestir, hafi heyrst og allt í einu hafi mikið ryk komið inn í lyftuna. 

Hópurinn öskraði, baðst fyrir og grét að því er segir í bandarískum fjölmiðlum. 

„Ég hélt að við værum að fara deyja,“ sagði Montemayor, sem er búsettur í Mexíkó. 

Slökkviliðsmenn fóru á vettvang og þeim tókst að koma fólkinu út með því að gera gat á múrvegg við bílastæði á 11. hæðinni. 

Ekki liggur fyrir hvers vegna lyftan stöðvaðist þar en skall ekki alla leið til jarðar. Málið er nú til rannsóknar en fram kemur í bandarískum fjölmiðlum að lyftan hafi staðist skoðun nú síðast í júlí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert