Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, gæti hafa vitað af morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Það muni aftur á móti ekki hafa áhrif á samskipti ríkjanna tveggja.
„Það gæti vel verið að krónprinsinn hafi vitað af þessum sorglega atburði. Kannski vissi hann það og kannski ekki!“ sagði Trump í yfirlýsingu.
„Kannski munum við aldrei vita allar staðreyndirnar í kringum morðið á Jamal Khashoggi,“ skrifaði hann og bætti við að Bandaríkin muni þrátt fyrir morðið áfram vera bandamaður Sádi-Arabíu.
Khashoggi var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl 2. október. Málið hefur verið vandræðalegt fyrir Bandaríkjastjórn sem hefur verið hliðholl konungsveldinu í Sádi-Arabíu.
Trump hefur undanfarnar vikur ekki viljað taka til greina þau sönnunargögn sem hafa komið upp um aðild stjórnvalda í Sádi-Arabíu að morðinu og að krónprinsinn hafi fyrirskipað það.
Eftir að New York Times greindi frá því að bandaríska leyniþjónustan, CIA, úrskurðaði að krónprinsinn hafi átt þátt í morðinu á Khashoggi þótti ljóst að annaðhvort myndi Trump refsa Sádum á einhvern hátt eða finna leið til að láta málið eiga sig.