Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafnaði í dag fjárlagafrumvarpi Ítalíu á þeim forsendum að ekki hafi verið gerðar ásættanlegar breytingar á því.
Ríki Evrópusambandsins, sem eru hluti af evrusvæðinu, þurfa að leggja fjárlagafrumvörp sín fyrir framkvæmdastjórnina til samþykktar áður en þau eru lögð fram í þjóðþingum þeirra. Deilur standa yfir á milli ríkisstjórnar Ítalíu og sambandsins um fjárlagafrumvarpið en framkvæmdastjórnin telur að það leiði til aukinnar skuldasöfnunar.
Evruríkin þurfa að fylgja reglu um hámark leyfilegs fjárlagahalla miðað við landsframleiðslu og gagnrýnir Evrópusambandið að ekki sé farið eftir þeirri reglu.
Matteo Salvini, varaforsætisráðherra Ítalíu, sagði í dag að ríkisstjórn hans ætli ekki að hvika frá fjárlagafrumvarpinu og að markmið þess ættu rétt á sér.
Evrópusambandið hefur hótað því að beita Ítalíu viðurlögum vegna málsins en ítölsk stjórnvöld segjast ekki ætla að verða við kröfum sambandsins.
Sagði Salvini að ef Evrópusambandið beitti Ítali viðurlögum væri það móðgun í garð þeirra. Samkvæmt frumvarpinu verður fjárlagahalli næsta árs 2,4% af landsframleiðslu.