Ghazi Saleh er tíu ára gamall og hann er átta kíló að þyngd. Hann er of veikburða til þess að gráta. Hann liggur hreyfingarlaus á sjúkrahúsi í jemensku borginni Taez því hann er of veikburða til þess að hreyfa sig. Eina sem hann getur er að hreyfa augun á sama tíma og hann berst við að halda þeim opnum. Hann er að deyja.
85 þúsund jemensk börn hafa soltið í hel undanfarin ár en stríð hefur geisað í landinu í tæp fjögur ár. Helmingur landsmanna, 14 milljónir, á á hættu að verða fórnarlömb hungursneyðar.
Á Al-Mudhafar-sjúkrahúsinu þar sem Ghazi liggur ganga læknar og hjúkrunarfræðingar á milli rúma og kanna með líðan vannærðra barna, þar á meðal smábarna. Eman Ali er hjúkrunarfræðingur og hún segir að Ghazi glími við mjög alvarlega vannæringu og þar sem hann hafi ekki fengið mat að borða í töluverðan tíma sé hann í mikilli hættu.
Á sama tíma og hluti hjúkrunarliðsins vigtar börnin reyna aðrir að gefa þeim næringu með sprautu þar sem þau eru of veikburða til að kyngja.
Heilbrigðiskerfið í Jemen er í molum og börnin bera byrðar stríðsins á milli ríkistjórnarinnar, sem nýtur stuðnings Sádi-Araba, og húta sem njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran og hafa náð stórum hluta Jemen á sitt vald, meðal annars höfuðborginni Sanaa. Sádi-Arabía og fleiri arabaríki hafa gert loftárásir á yfirráðasvæði uppreisnarmannanna og notið stuðnings stjórnvalda í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.
Fyrr í dag sendu mannúðarsamtökin Save the Children frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að 85 þúsund börn yngri en fimm ára hafi dáið úr vannæringu eða sjúkdómum frá því stríðið braust út í mars 2015.
Á sama tíma og Sameinuðu þjóðirnar reyna að hafa milligöngu um friðarviðræður í Svíþjóð fyrir árslok versnar ástandið í Jemen dag frá degi. Sona Othman, sem stýrir næringargjöf á Al-Mudhafar-sjúkrahúsinu segir að á hverjum degi komi til þeirra vannærð börn og ástand sumra er skelfilegt. Það eigi við um Ghazi en hann sé lýsandi dæmi um ástandið í landinu.
Samkvæmt upplýsingum frá UNICEF er helmingur þeirra 14 milljóna sem eru á barmi hungursneyðar börn.
Sonur Fatimu Salman er vannærður og hún segist verða sífellt vonlausari eftir því sem stríðið dregst á langinn. „Maðurinn minn var í vinnu fyrir stríð og launin hans dugðu vart til þess að framfleyta okkur. En núna höfum við ekkert,“ segir hún. „Við viljum að þessu stríði ljúki en það versnar bara og versnar.“
Yfir 22 milljónir Jemena, þrír af hverjum fjórum landsmanna, reiða sig á mannúðaraðstoð til þess að lifa af. Efnahagur landsins er í molum og hafa opinberir starfsmenn, svo sem kennarar, ekki fengið laun greidd mánuðum saman.
UNICEF áætlar að 4,5 milljónir barna í Jemen geti ekki sótt ríkisrekna skóla þar sem kennarar hafa ekki fengið greidd laun í tæp tvö ár. Yfir 2.500 skóla hafa annaðhvort verið skemmdir eða eyðilagst og aðrir eru notaðir sem neyðarskýli fyrir fólk sem hefur flúið undan átökum á heimaslóðum.
Yfir 40% stúlkna í Jemen ganga í hjónaband fyrir 15 ára aldur og 75% eru komnar í hjónaband fyrir 18 ára aldur. Staða drengja er síst skárri því þeir eiga á hættu að vera neyddir í hermennsku á barnsaldri.