Skógareyðing í Amazon-frumskóginum hefur ekki verið meiri í áratug samkvæmt opinberum mælingum. Um 7.900 ferkílómetrar af skóglendi hafa eyðilagst á tímabilinu júlí í fyrra og þar til júlí í ár. Það er 13,7% meiri eyðilegging en á sama tímabili árið á undan.
Edson Duarte, umhverfisráðherra Brasilíu, segir að ólöglegt skógarhögg hafi aukist til muna og kennir því helst um.
Tölurnar koma í kjölfarið á áhyggjum eftir að Jair Bolsonaro var kjörinn forseti Brasilíu í síðasta mánuði.
Hann sagðist ætla að draga úr sektagreiðslum tengdum skógareyðingu í kosningabaráttunni. Auk þess ætlaði hann að draga úr áhrifamætti umhverfisstofnana.
Þrátt fyrir að skógareyðing sé að aukast miðað við síðustu ár er eyðingin mun minni en þegar mest lét árið 2004. Það ár eyðilögðust um 27.000 ferkílómetrar af skóglendi en það svæði er jafn stórt og Haítí.