Átta börn yngri en 14 ára frömdu sjálfsvíg

AFP

Sjálfsvígum hefur fjölgað í Svíþjóð en í fyrra frömdu 1.544 manns sjálfsvíg þar í landi. Af þeim voru 1.063 karlar og 541 kona. Alls frömdu 149 ungmenni á aldrinum 15-24 ára sjálfsvíg í Svíþjóð og átta börn yngri en 14 ára. Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök sænskra karla á aldrinum 15 til 44 ára.

Á hverju ári fer rannsóknarstofnun Karolinska í sjálfsskaðarannsóknum yfir tölur landlæknisembættis um sjálfsvíg. Í frétt The Local kemur fram að tölurnar fyrir síðasta ár valdi verulegum áhyggjum þar sem sjálfsvígum ungmenna er að fjölga.

Gergö Hadlaczky, sem stýrir sjálfsvígsrannsóknum hjá Karolinska, segir að þetta sé mikilvæg vísbending um að Svíar séu á rangri leið varðandi sjálfsvígsforvarnir. Þrátt fyrir að aukningin sé ekki mikil þá er hún til staðar.

Sjálfsvígum fækkaði mjög í Svíþjóð á tveimur síðustu áratugum tuttugustu aldar en hefur fjölgað eftir aldamót.

Þeir sem unnu rannsóknina segjast ekki geta neglt niður hvaða ástæða liggur að baki aukningunni en Hadlaczky segir ríka ástæðu til þess að setja fjármagn í að rannsaka þetta frekar.

Samtökin Suicide Zero hafa reynt að fá sænsk yfirvöld til þess að gera meira til þess að draga úr sjálfsvígum en samtökin benda á máli sínu til stuðnings að sex sinnum fleiri fremji sjálfsvíg á hverju ári en deyja í umferðarslysum. Aðeins eru settar þrjár milljónir sænskra króna, 41 milljón króna, í sjálfsvígsforvarnir á meðan 100-150 milljónir sænskra króna, 1,4-2 milljarðar króna, renna í umferðaröryggismál frá sænska ríkinu. 

<a href="https://www.mbl.is/frettir/burdargrein/2018/09/16/eg_fylgdi_syni_minum_til_himna/" target="_blank"><strong>frétt mbl.is</strong></a>
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka