Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hefur lýst verulegum áhyggjum vegna ákvörðunar stjórnvalda í Úkraínu um að setja herlög í landinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsetaembætti Rússlands í dag.
Pútín sagði í símtali við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að hann vonaðist til þess að Merkel gæti komið í veg fyrir að stjórnvöld í Kænugarði gripu til ófyrirleitinna aðgerða. Pútín lýsti yfir alvarlegum áhyggjum yfir ákvörðun Kænugarðs og hann vonast til þess að stjórnvöld í Berlín geti haft áhrif á yfirvöld í Úkraínu svo þau grípi ekki til frekari gáleysislegra viðbragða, segir í yfirlýsingunni frá Pútín.