Ófremdarástand ríkir á Azovhafi og koma Rússar nú í veg fyrir það að skip komist til eða frá úkraínskum höfnum. Að sögn samgönguráðherra Úkraínu hafa aðgerðirnar síðustu klukkustundir hindrað siglingar 35 skipa um tvær úkraínskar hafnir við Azovhaf. Hins vegar fá skip að sigla að rússneskum höfnum. Forseti Úkraínu hefur sett á herlög og segir stríð vofa yfir. Herlögin munu gilda í þrjátíu daga á svæðum næst landamærum Rússlands, við Svartahaf og Azovhaf.
„Markmiðið er einfalt: Með því að koma í veg fyrir starfsemi við úkraínskar hafnir við Azovhaf vonast Rússar til þess að hrekja Úkraínumenn frá sínu eigin yfirráðasvæði – yfirráðasvæði sem er okkar samkvæmt alþjóðalögum,“ skrifaði ráðherrann Volodimir Omelian á Facebook-síðu sína í morgun.
Aðgerðirnar eru til marks um aukna spennu í samskiptum Rússa og Úkraínumanna – enn einu sinni. Forseti Úkraínu hefur hvatt Atlantshafsbandalagið til að láta til sín taka í málinu og til að færa herskip inn í Azovhaf.
Rússar lögðu hald á þrjú úkraínsk herskip við Krímskaga á sunnudag og handtóku 23 úr áhöfnum þeirra. Þrír eru sagðir hafa særst í árás sem Rússar gerðu á skipin.
Rússnesk stjórnvöld tóku völdin á Krímskaga, sem áður tilheyrði Úkraínu, árið 2014. Rússar segja úkraínsku skipin hafa verið í leyfisleysi í landhelgi sinni en því hafna stjórnvöld í Úkraínu alfarið.
Árið 2015 braust út stríð í austurhluta Úkraínu. Þar hófu andstæðingar stjórnvalda í landinu, með stuðningi Rússa, andspyrnu sem endaði með blóðugum átökum sem kostuðu tugþúsundir manna lífið. Átök eiga sér þar enn stað og því má segja að stríðinu sé enn ekki lokið.
Í kjölfar þess andar því mjög köldu milli stjórnvalda landanna og höfðu Úkraínumenn frumkvæði að því að slíta öllu stjórnmálasambandi við Rússa. Síðustu ár hafa þeir þess í stað eflt tengsl við Vesturlönd.
Vettvangur átakanna nú er í Azovhafi, innhafi norður úr Svartahafi, austan Krímskaga, nánar tiltekið í Kerch-sundi. Um sundið er siglingaleið milli meginlands Rússlands og Krímskagans en bæði Úkraína og Rússland eiga landamæri að Azovhafi.
Samkvæmt tvíhliða samningi ríkjanna hafa þau bæði rétt til að sigla um sundið. Yfir sundið er svo ný brú sem Rússar byggðu.
Mörg ríki hafa lýst yfir áhyggjum af ástandinu nú en á þessari stundu er óvíst hvort einhver þeirra ætli að bregðast frekar við. Þegar eru ýmiss konar viðskiptabönn í gildi gagnvart Rússlandi. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt bæði ríkin til að reyna að lægja öldurnar og koma í veg fyrir að átök brjótist út. Leiðtogar tuttugu helstu iðnríkja heims munu hittast á fundi í Argentínu í þessari viku og ljóst að þar verður þetta mál m.a. til umræðu.
Margir telja að aðgerðir Rússa nú séu nokkurs konar leiksýning til að sýna mátt Vladimírs Pútíns forseta. Sýningunni sé ætlað að auka vinsældir forsetans heima fyrir en þær hafa ekki verið minni árum saman í kjölfar uppstokkunar á eftirlaunakerfi landsins.
Rússar hafa gefið í skyn að þeir muni ákæra áhafnir herskipanna sem þeir yfirtóku á sunnudag. Verði það gert er fullvíst að það muni reita stjórnvöld í Kænugarði enn frekar til reiði. Þau segja áhöfnina „stríðsfanga“. Talið er eins líklegt að Rússar muni nota áhafnirnar sem skiptimynd til að ná frekari völdum á hafsvæðinu við Krímskaga.
Greinin byggir á fréttum CNN, The Guardian og AFP.