Tveir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins sögðu í dag að það væri ekki vafi í þeirra huga að Mohammend bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, sé tengdur við morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi.
Gina Haspel, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), ræddi við nokkra öldungadeildarþingmenn fyrr í dag. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði fyrir tveimur vikum að krónprinsinn hafi jafnvel vitað af þessum hörmulega atburði.
Öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham hefur hvatt Trump til að verða harðari í afstöðu sinni gagnvart krónprinsinum. Hann sagðist fullviss um að Salman hafi vitað af morðinu á Khashoggi áður en það var framið.
Enn fremur sagði Graham að Salman væri „brjálaður“ og „hættulegur“.
Samflokksmaður Graham, Bob Corker, tók undir orð félaga síns. „Það er ekki vafi í mínum huga að krónprinsinn skipaði fyrir um morðið.“
Khashoggi var myrtur fyrir utan ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í október. Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því um miðjan nóvember að CIA hafi komist að þeirri niðurstöðu að Mohammend bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi fyrirskipað morðið á Khashoggi.
Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa ákært ellefu manns fyrir morðið en þvertaka fyrir að krónprinsinn hafi nokkuð með morðið að gera. CIA hefur hins vegar sannanir fyrir því að nokkrum klukkustundum áður en Khashoggi var myrtur sendi krónprins Sádi-Arabíu að minnsta kosti 11 skilaboð til Saud al-Qahtani, nánasta ráðgjafa síns, sem hefur verið ákærður fyrir að hafa skipulagt morðið.