Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, dró aðeins úr væntingum þeirra sem hafa gert sér vonir um að Norður-Kórea muni afkjarnorkuvæðast á næstunni, í Twitter-færslu sem hann birti í dag.
„Það hafa margir spurt mig hvernig samningaviðræður við Norður-Kóreu gangi, en ég segi alltaf að við séum ekkert að flýta okkur,“ tísti forsetinn. AFP-fréttastofan greinir frá.
Trump hljómaði þó bjartsýnn í færslunni og sagði að efnahagslíf Norður-Kóreu byði upp á mikla möguleika og að enginn sæi það betur en leiðtogi landsins, Kim Jong-un. Trump sagðist sannfærður um að Kim myndi nýta sér þessa möguleika fyrir þjóð sína.
Trump og Kim áttu sögulegan fund í júní á þessu ári, en það var upphafið að því ferli að afkjarnorkuvæða Kóreuskagann. Fram að því höfðu leiðtogarnir skipst á móðgunum og hótunum mánuðum saman. Annar fundur er fyrirhugaður á næsta ári, en Trump hefur fengið á sig gagnrýni vegna þess að Norður-Kórea virðist ekki hafa tekið mörg skref í átt að því að láta af kjarnorkuáætlun sinni.