Stöðuvötn Himalaja tifandi tímasprengja

Stöðuvatnið Imja sem liggur við rætur Everest með sinn grænbláa lit gæti verið sannkölluð náttúruperla ef ekki væri fyrir hættuna sem af því starfar.

Imja er eitt fjölmargra stöðuvatna í Himalaja-fjöllum en hundruð slíkra vatna hafa myndast á undanförnum árum vegna bráðnunar jökla. Vísindamenn hafa varað við því að loftslagsbreytingar valdi því að jöklar í Himalaja-fjöllum bráðni nú með ógnvekjandi hraða. Það geti valdið ofanflóði úr stöðuvötnum á borð við Imja sem steypist niður hlíðarnar af ógnvænlegum krafti.

Kolefnisfótspor Nepal er agnarsmátt í samanburði við nágrannaríkin Kína og Indland, sem eru í hópi þeirra þjóða sem menga hvað mest. Íbúum Nepal stafar engu að síður hætta af bráðnandi jöklum Himalaja og segja yfirvöld þá þungu byrði vera óverðskuldaða.

Refsað fyrir mistök annarra

„Okkur finnst eins og það sé verið að refsa okkur fyrir mistök sem við gerðum ekki,“ sagði Bidya Devi Bhandari forseti Nepal við leiðtoga heims á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nú fer fram í Katowice í Póllandi. „Við neyðumst til að eyða verulegum hluta þjóðartekna okkar í að takast á við vandamál vegna mögulegra hamfara.“

Loftslagsráðstefnunni, sem ljúka átti í gær, var framlengt í dag þar sem ríkjunum sem undirritað hafa Parísarsamninginn hefur ekki tekist að komast að samkomulagi um næstu skref í innleiðingu hans. Samkomulag náðist nú í kvöld, en það er þó sagt fara fjarri því að mæta þeim stöðlum sem þyrfti að ná ætti að taka að forða þeim ríkj­um sem hvað viðkvæm­ust eru fyr­ir áhrif­um hlýn­un­ar jarðar.

AFP-fréttaveitan segir nepalska ráðamenn hafa óskað eftir því að alþjóðasamfélagið taki aukin þátt í þeim kostnaði sem ríkið verður fyrir vegna loftslagsbreytinganna.

Stöðuvatnið Imja í Himalajafjöllum. Imja er það stöðuvatn í Nepal …
Stöðuvatnið Imja í Himalajafjöllum. Imja er það stöðuvatn í Nepal sem stækkar hvað hraðast. AFP

Þeir starfa við að takmarka flóðahættu af völdum loftslagsbreytinga óttast að flóð í jökulvötnum Himalaja muni senda vatn, aur og grjót niður hlíðarnar að þéttbyggðum svæðum á sléttunum í suðurhluta landsins og muni um leið þurrka út vegi, orkuver og heilu þorpin.

Hætta talin geta stafað af 21 stöðuvatni

„Áhættan fer vaxandi,“ segir loftslagsvísindamaðurinn Arun Bhakta Shrestha, sem starfar við fjallarannsóknarstofnunina International Centre for Integrated Mountain Development í Katmandú. „Dalirnir eru að verða þéttbyggðari og innviðirnir eru að þróast hratt.“

Líkt og áður sagði hafa hundruð stöðuvatna myndast í Himalaja-fjöllum á undanförnum áratugum. Rannsókn sem gerð var árið 2014 sýndi fram á að fjórðungur jökla í Nepal hafði minnkað á árabilinu frá 1977-2010 og með bráðnuninni höfðu myndast 1.466 stöðuvötn.

Síðla árs 2016 var myndaður ræsisskurður og byrjað að láta …
Síðla árs 2016 var myndaður ræsisskurður og byrjað að láta vatn renna úr Imja, sem var þá orðið 150 metra djúpt og tveggja km langt. AFP

21 þessara stöðuvatna eru skilgreind sem svo að af þeim geti stafað hætta og eiga íbúar Nepal nú í kapphlaupi við að vera skrefinu á undan þeim hörmungum sem breytingar á fjallgarðinum, sem fylgja hnattrænni hlýnun, geta haft í för með sér.

„Við erum lítið land og það er lítið sem við getum gert til að stöðva það sem er að koma fyrir jöklana okkar,“ segir Rishi Ram Sharma, yfirmaður veður- og vatnafræði hjá ríkinu. „Við verðum samt að gera það sem við getum til að aðlagast og verja íbúa.“

Óttuðust ofanflóð í skjálftanum 2015

Imja er það stöðuvatn í Nepal sem stækkar hvað hraðast. Á árum áður stafaði íbúum þorpsins Surke lítil hætta af vatninu, sem er hátt uppi í fjallgarðinum. Við byrjun níunda áratugar síðustu aldar var Imja lítið stöðuvatn í um 5.010 metra hæð við rætur samnefnds jökuls. Árið 2014 hafði stöðuvatnið hins vegar þrefaldast að stærð og sérfræðingar tóku að vara við því að veggir Imja, sem eru úr jarðbrotum myndu ekki halda vatninu mikið lengur.

Ári síðar, þegar öflugur jarðskjálfti varð í Nepal óttuðust íbúar Surke að ofanflóð kæmi úr stöðuvatninu og myndi drekkja þeim. „Við vorum dauðhrædd við að skjálftinn myndi koma af stað ofanflóði. Við hlupum öll til að reyna að komast á öruggum stað,“ rifjar Phudoma Sherpa einn íbúanna upp.

Himalaja-fjallgarðurinn. Hundruð stöðuvatna myndast í Himalaja-fjöllum á undanförnum áratugum og …
Himalaja-fjallgarðurinn. Hundruð stöðuvatna myndast í Himalaja-fjöllum á undanförnum áratugum og eru 21 þeirra skilgreind sem svo að hætta geti stafað af þeim. AFP

Þörf áminning fyrir yfirvöld

Líkt og fyrir kraftaverk varð ekki flóð að þessu sinni og lífi þeirra 12.000 manna sem búa þar fyrir neðan var þyrmt. Þetta var hins vegar þörf áminning fyrir ráðamenn og sérfræðingar sögðu stjórnvöldum að stöðuvötnin í fjallgarðinum væru í raun lítið annað en tifandi tímasprengja og líf þúsunda væru í hættu.

Það var því síðla árs 2016 sem hafist var handa við að láta vatn renna úr Imja, sem er hér var komið var orðið 150 metra djúpt og tveggja km langt.

Jakuxar og þyrlur voru notaðar til að flytja efnivið upp í 5.000 metra hæð til þess að mynda ræsisskurð úr vatninu og teymi verkamanna vann í hálft ár í þunnu loftinu. Sérstöku viðvörunarkerfi var í kjölfari komið á og er þetta í annað skipti í sögu Nepal sem slíkt er gert. Rúmum fimm milljón rúmmetrum af vatni hefur verið hleypt af Imja, sem nú er 3,5 metrum lægri en áður.

„Nú er komin skurður, þannig að vatnið sem bætist við flýtur á brott. Þannig er áhættan minnkuð,“ segir Deepak KC, sérfræðingur í loftslagsmálum hjá Sameinuðu þjóðunum sem styrktu verkið.

Kostnaðurinn við framkvæmdina nam 7,4 milljónum dollara sem er há upphæð fyrir efnalitla þjóð sem reiða þarf sig að miklu leyti á efnaðri nágrannaríki sín og alþjóðlega aðstoð. Í þessu tilfelli kom 80% kostnaðarins úr alþjóðlegum umhverfissjóði Global Environment Facility, sem styrkir græn verkefni í þróunarlöndum og Sameinuðu þjóðirnar borguðu rest.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert