Fasteignaeiganda nokkrum í San Francisco sem reif sögufrægt hús sitt hefur verið gert að byggja nákvæma eftirlíkingu af húsinu og koma fyrir skilti utan á því þar sem er útskýrt hvað hafi gerst. BBC greinir frá.
Húsið sem rifið var nefnist Largent House og er í Twin Peaks-hverfinu í San Francisco. Það var byggt árið 1936 af bandarísk-ástralska arkitektinum Richard Neutra.
Núverandi eigandi, Ross Johnston, keypti húsið í fyrra fyrir 1,7 milljónir dollara (um 187 milljónir kr.) og hafði leyfi til að gera á því endurbætur. Þær fólu hins vegar ekki í sér að rífa mætti húsið.
Cheryl Traverce, nágranni Johnston, sagði í samtali við KPIX 5 sjónvarpsstöðina að hún hefði lagt fram kvörtun eftir að hún kom heim einn daginn og sá að búið var að rífa húsið. „Ég fór til New York í viku og þegar ég kom til baka þá var húsið horfið, algjörlega horfið,“ sagði hún.
Johnston sagði skipulagsyfirvöldum í San Francisco að hann hefði keypt húsið sem heimili sem gerði sex manna fjölskyldu hans fært að flytja aftur til San Francisco. Hann hefði hins vegar verið fastur í biðstöðu í ár. Lögfræðingur Johnston benti þá á að fyrrverandi eigendur þessa sögufræga húss hefðu þegar gert á því breytingar.
Í úrskurði skipulagsyfirvalda í síðustu viku var Johnston engu að síður gert að reisa nákvæma eftirgerð gamla hússins, ekki stóra nýja húsið sem hann hafði ætlað að byggja þar. Kjósi Johnston að selja eignina færist kvöðin yfir á næsta eiganda.
Traverce sagði ákvörðunina vera „sigur fyrir nágrannana og litla manninn“.
Áður en Largent-húsið var rifið var það tveggja hæða hús með sundlaug innandyra og eitt fimm húsa eftir Neutra í San Francisco og er bygging þess á kreppuárunum sögð hafa verið róttækt framtak.
Dennis Richards, skipulagsstjóri San Francisco, sagðist vona að úrskurður nefndarinnar yrði öðrum framkvæmdaglöðum eigendum sögufrægra eigna til viðvörunar. „Hvarfli það að verktaka að rífa hús ólöglega, þá hvet ég þá til að gera sér ferð að Hopkins 49 og skoða skiltið, af því að svona verður tekið á þessu í framtíðinni,“ sagði hann.