Skáru upp rangan fót

Hjúkrunarfræðingurinn vonsvikinn á heimili sínu í Arendal í Suður-Noregi með …
Hjúkrunarfræðingurinn vonsvikinn á heimili sínu í Arendal í Suður-Noregi með liðbönd í toppstandi í hægri ökkla, sem því miður reyndist rangur ökkli. Johansen segir norskt heilbrigðiskerfi komið að fótum fram sé þetta það öryggi sem bíði sjúklinga. Ljósmynd/Margarita Jeanett Johansen/Úr einkasafni

Margarita Jeanett Johansen, þrítugur hjúkrunarfræðingur frá Arendal, vaknaði við vondan draum í bókstaflegri merkingu þegar hún kom til meðvitundar á vöknunardeild Sørlandet-sjúkrahússins þar í bænum 30. nóvember síðastliðinn. Þrátt fyrir að vinstri ökkli hennar væri kirfilega tússaður með merkingum fyrir skurðarteymi sjúkrahússins bárust henni logandi sársaukaboð frá þeim hægri, sem reyndist sá ökkli sem hnífnum hafði verið brugðið á.

„Maður er í mjög viðkvæmri stöðu fyrir skurðaðgerð, maður leggur í raun örlög sín í hendur starfsfólks á skurðstofu og vonast eftir bestu, og ekki síst réttu, meðferðinni,“ segir Johansen í samtali við norska dagblaðið VG. Þremur dögum áður segist hún hafa gengist undir heilsufarsskoðun fyrir skurðaðgerð hjá lækni og hafi ökkli hennar þá verið merktur með kolsvörtum tússpenna fyrir komandi skurð.

„Þessar merkingar voru enn mjög skýrar þegar mér var rúllað inn á skurðstofuna fyrir aðgerð. Svo var ég að sálast í hægri fætinum þegar ég vaknaði,“ segir Johansen og bætir því við að traust hennar til norsks heilbrigðiskerfis hafi beðið verulega hnekki eftir þessa lífsreynslu.

Þreyttir og hlökkuðu til helgarinnar

Johansen segir höfuðið þó fyrst hafa verið bitið af skömminni þegar fulltrúar Sørlandet-sjúkrahússins báru því við að þarna hefði verið um mannleg mistök að ræða, fólk hafi verið þreytt eftir erfiða vinnuviku og hlakkað til helgarinnar enda skurðurinn örlagaríki framkvæmdur á föstudegi.

Hún segir það óskiljanlegt að svona lagað geti gerst á norsku sjúkrahúsi, sjálf hafi hún sem hjúkrunarfræðingur oftsinnis unnið níu, tíu og jafnvel ellefu vaktir í röð og þó óhugsandi að hún gæti gert svo afdrifarik mistök sem að skera upp rangan fót á sjúklingi.

„Þetta er alveg fáránlegt og takk kærlega [fyrir batakveðjurnar], ætlið þið að skrifa um þetta á Íslandi?“ spurði Johansen í spjalli við mbl.is í dag þegar blaðamaður falaðist eftir leyfi til að nota mynd úr einkasafni hennar við fréttina.

„Núna tekur við hjá mér sjúkraþjálfun drjúga stund, frá miðjum janúar eða svo. Ég veit í raun ekki mikið um hvað svo tekur við fyrr en ég hef gengist undir skoðun hjá skurðlækninum í lok janúar,“ útskýrir hún.

Ein afleiðing langra vinnudaga heilbrigðisstarfsfólks

„Svona uppákomur eru hryllilega dapurlegar. Því miður er þetta ein afleiðing allt of langra vinnudaga heilbrigðisstarfsfólks yfir allt of löng tímabil. Atvik sem þetta koma alvarlega niður á öryggi sjúklinga,“ segir hjúkrunarfræðingurinn sem veit hvað hann syngur en Johansen starfar sjálf við heimahjúkrun og á að baki fjögurra ára starfsferil.

„Það er ekki bara skurðlæknirinn sem gerir mistök í þessu tilfelli heldur allt skurðarteymið. Þarna bregðast allir foraðgerðarliðir á skurðstofunni þrátt fyrir að farið hafi verið í gegnum fyrsta og annan hluta verklagsreglna um öryggi í skurðaðgerðum,“ segir Johansen sem er öllum hnútum kunn í slíkum undirbúningi.

Spurð hvort hún muni sækjast eftir skaðabótum í kjölfar mistakanna segir hún málið komið á borð Norsku sjúklingaskaðabótastofnunarinnar (n. Norsk pasientskadeerstatning), embættis sem stofnað var sem tímabundin lausn árið 1988 en reyndist í fyllingu tímans eiga svo annríkt að tilvera þess var bundin í sjúklingaskaðalögin sem tóku gildi í Noregi 1. janúar 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert