Nýttu alla stærstu samfélagsmiðlana

„Það er augljóst að tilgangur færslnanna og skilaboðanna var að …
„Það er augljóst að tilgangur færslnanna og skilaboðanna var að greiða götu Repúblikanaflokksins - og sérstaklega Donalds Trump,“ segir í nýrri skýrslu um meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016. AFP

Rússnesk stjórnvöld nýttu sér alla stærstu samfélagsmiðla við afskipti sín af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem öldungadeild Bandaríkjaþings lét vinna og verður bráðum gerð opinber.

Í skýrslunni kemur fram að fleiri miðlar en Facebook og Twitter voru notaðir til að dreifa áróðri og þar ber helst að nefna YouTube, Tumblr, Instagram og PayPal. Síðbúin og ósamræmd viðbrögð tæknifyrirtækja eru einnig gagnrýnd í skýrslunni.

Skýrslan er unnin af greiningarfyrirtækinu Graphika sem sérhæfir sig í samfélagsmiðlum og The Computational Propaganda Research Project (COMPROP) við Oxford-háskóla sem rannskar samspil algríms (e. algorithm), sjálfvirkni og stjórnmála. 

Rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings óskaði eftir milljónum færslna frá Twitter, Google og Facebook sem unnið var upp úr við gerð skýrslunnar. Tilgangurinn er samt sem áður að varpa ljósi á notkun annarra samfélagsmiðla við meint afskipti Rússa af kosningabaráttunni. Niðurstaðan leiðir í ljós að samfélagsmiðlar á borð við YouTube, Tumblr, PayPal og Google+ voru notaðir, allt frá stafrænni markaðssetningu yfir í að ná til tiltekinna einstaklinga.

Áróðrinum dreift frá tröllabúi

Rússneska stofnunin In­ter­net Rese­arch Agency tengist flestum færslunum. Stofnuninni hefur verið lýst sem stofnun skipuleggur „upp­lýs­inga­stríði gegn Banda­ríkj­un­um“ með því að stjórn­a svokölluðu trölla­búi (e. Troll farm), sem er miðstöð eða sam­tök þar sem unnið er skipu­lega að því að koma ósann­ind­um eða mis­vís­andi upp­lýs­ing­um á fram­færi á net­inu.

In­ter­net Rese­arch Agency er ein af þremur stofnunum sem Robert Mu­ell­er, sér­stakur sak­sókn­ari banda­rísku al­rík­is­lög­regl­unn­ar (FBI) á meint­um af­skipt­um Rússa af banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um 2016, hefur skoðað í tengslum við sína rannsókn. Tólf starfsmenn stofnunarinnar hafa verið ákærðir fyr­ir að hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöðu forsetakosninganna.

Áróðrinum sem var dreift í gegnum miðlana var einna helst beint að fólki með íhaldssamar stjórnmálaskoðanir og tengdust færslurnar innflytjendamálum og byssulöggjöf, sem dæmi. Einnig mátti finna færslur þar sem reynt var að gera lítið úr vægi kosningaréttarins og þeim beint til þeldökkra kjósenda sem hallast til vinstri.

„Það er augljóst að tilgangur færslnanna og skilaboðanna var að greiða götu Repúblikanaflokksins - og sérstaklega Donalds Trump,“ segir í skýrslunni, sem verður opinberuð í heild sinni á næstu dögum.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka