Nýttu alla stærstu samfélagsmiðlana

„Það er augljóst að tilgangur færslnanna og skilaboðanna var að …
„Það er augljóst að tilgangur færslnanna og skilaboðanna var að greiða götu Repúblikanaflokksins - og sérstaklega Donalds Trump,“ segir í nýrri skýrslu um meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016. AFP

Rúss­nesk stjórn­völd nýttu sér alla stærstu sam­fé­lags­miðla við af­skipti sín af for­seta­kosn­ing­un­um í Banda­ríkj­un­um 2016. Þetta kem­ur fram í nýrri skýrslu sem öld­unga­deild Banda­ríkjaþings lét vinna og verður bráðum gerð op­in­ber.

Í skýrsl­unni kem­ur fram að fleiri miðlar en Face­book og Twitter voru notaðir til að dreifa áróðri og þar ber helst að nefna YouTu­be, Tumblr, In­sta­gram og PayPal. Síðbúin og ósam­ræmd viðbrögð tæknifyr­ir­tækja eru einnig gagn­rýnd í skýrsl­unni.

Skýrsl­an er unn­in af grein­ing­ar­fyr­ir­tæk­inu Grap­hika sem sér­hæf­ir sig í sam­fé­lags­miðlum og The Computati­onal Propag­anda Rese­arch Proj­ect (COMPROP) við Oxford-há­skóla sem rannskar sam­spil al­gríms (e. al­g­o­rit­hm), sjálf­virkni og stjórn­mála. 

Rann­sókn­ar­nefnd öld­unga­deild­ar Banda­ríkjaþings óskaði eft­ir millj­ón­um færslna frá Twitter, Google og Face­book sem unnið var upp úr við gerð skýrsl­unn­ar. Til­gang­ur­inn er samt sem áður að varpa ljósi á notk­un annarra sam­fé­lags­miðla við meint af­skipti Rússa af kosn­inga­bar­átt­unni. Niðurstaðan leiðir í ljós að sam­fé­lags­miðlar á borð við YouTu­be, Tumblr, PayPal og Google+ voru notaðir, allt frá sta­f­rænni markaðssetn­ingu yfir í að ná til til­tek­inna ein­stak­linga.

Áróðrin­um dreift frá trölla­búi

Rúss­neska stofn­un­in In­ter­net Rese­arch Agency teng­ist flest­um færsl­un­um. Stofn­un­inni hef­ur verið lýst sem stofn­un skipu­legg­ur „upp­lýs­inga­stríði gegn Banda­ríkj­un­um“ með því að stjórn­a svo­kölluðu trölla­búi (e. Troll farm), sem er miðstöð eða sam­tök þar sem unnið er skipu­lega að því að koma ósann­ind­um eða mis­vís­andi upp­lýs­ing­um á fram­færi á net­inu.

In­ter­net Rese­arch Agency er ein af þrem­ur stofn­un­um sem Robert Mu­ell­er, sér­stak­ur sak­sókn­ari banda­rísku al­rík­is­lög­regl­unn­ar (FBI) á meint­um af­skipt­um Rússa af banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um 2016, hef­ur skoðað í tengsl­um við sína rann­sókn. Tólf starfs­menn stofn­un­ar­inn­ar hafa verið ákærðir fyr­ir að hafa reynt að hafa áhrif á niður­stöðu for­seta­kosn­ing­anna.

Áróðrin­um sem var dreift í gegn­um miðlana var einna helst beint að fólki með íhalds­sam­ar stjórn­mála­skoðanir og tengd­ust færsl­urn­ar inn­flytj­enda­mál­um og byssu­lög­gjöf, sem dæmi. Einnig mátti finna færsl­ur þar sem reynt var að gera lítið úr vægi kosn­inga­rétt­ar­ins og þeim beint til þeldökkra kjós­enda sem hall­ast til vinstri.

„Það er aug­ljóst að til­gang­ur færsln­anna og skila­boðanna var að greiða götu Re­públi­kana­flokks­ins - og sér­stak­lega Don­alds Trump,“ seg­ir í skýrsl­unni, sem verður op­in­beruð í heild sinni á næstu dög­um.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert