Versta ár frá fjármálakreppunni

Mikiil spenna var í kauphöllinni í New York á meðan …
Mikiil spenna var í kauphöllinni í New York á meðan blaðamannafundur seðlabankastjóra stóð yfir. Í kjölfar tilkynningar bankans féll gengi hlutabréfa. AFP

Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði í gær stýrivexti úr 2,25% í 2,5% þrátt fyrir að bankinn hafi sagt að bandaríska hagkerfið sé að hægja á sér, en tilkynning þess efnis var kynnt a blaðamannafundi síðdegis að staðartíma. Í kjölfarið féllu hlutabréf nokkuð ört í Bandaríkjunum og um heim allan.

Árið 2018 stefnir í að verða það versta á bandarískum hlutabréfamarkaði í áratug, eða frá fjármálakreppunni 2008. Um 7 þúsund milljarðar Bandaríkjadollara hafa tapast á mörkuðum á heimsvísu, að því er segir í umfjöllun Reuters.

Hlutabréf féllu víða í Asíu í nótt, einkum mest á Nikkei-kauphöllinni í Japan eða um 2,8%. Í dag hafa einnig verið lækkanir í kauphöllum Evrópu frá opnun markaða. Hefur DAX lækkað um 1%, CAC um 1,4% og FTSE um 0,5%.

Financial Times segir viðbrögð markaða í Bandaríkjunum við stýrivaxtahækkun Seðlabanka Bandaríkjanna þau verstu síðan 1994.

Skipaður af Trump

Á blaðamannafundi bankans sagði Jerome H. Powell seðlabankastjóri að bandaríska hagkerfið sé enn heilbrigt og traust, en að útlit væri fyrir því að myndi hægja á hagvexti. Á þessum grunni væri ekki ástæða til þess að boða stefnubreytingu frá núverandi stefnu bankans um að draga úr stuðningi við hagkerfið með lágum vöxtum að mati seðlabankastjórans.

Washington Post tekur fram í umfjöllun sinni að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skipaði Powell í embætti fyrir ári og bað bankann um að láta af vaxtahækkunum. Hefur Trump sagt bankann „klikkaðan“ og „vitlausan“ vegna stefnu sinnar um að hækka vexti þrátt fyrir að ekki sé til staðar mælanleg verðbólga.

Þá hefur Trump sagt Powell bera ábyrgð á fallandi gengi hlutabréfa undanfarin misseri, en það stefnir í versta ár á bandarískum hlutabréfamarkaði í áratug.

Jerome Powell á blaðamannafundinum í gær.
Jerome Powell á blaðamannafundinum í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka