Hluti ríkisstofnana Bandaríkjanna lokaði í gær eftir að þingið frestaði fundi sínum án þess að ná samkomulagi um fjárlög. Frá og með miðnætti að bandarískum tíma er því ekki samþykki fyrir um fjórðungi af útgjöldum alríkisins, en þar á meðal eru útgjöld vegna heimavarnarráðuneytisins og stofnana á sviði samgöngu,- landbúnaðar-, utanríkis- og dómsmála.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur krafist þess að þingið samþykki allavega 5 milljarða Bandaríkjadali í byggingu veggs á milli Mexíkó og Bandaríkjanna, en veggurinn var eitt helsta kosningaloforð hans og á að hans sögn að auka öryggi landsins og draga úr komu ólöglegra innflytjenda sem koma frá Mexíkó.
Demókratar, sem nú hafa meirihluta í neðri deild þingsins, eru mótfallnir þeim fjárútlátum og kemur þessi pattstaða í veg fyrir að hægt sé að afgreiða frumvarpið.
Þetta er þriðja lokun hluta alríkisins á þessu ári og þýðir það að starfsmenn þurfa annað hvort að vinna án launa eða fara í tímabundið leyfi.
Forsetinn hefur skellt skuldinni af lokuninni á Demókrata og að þeir þyrftu að finna lausn á málinu. Demókratar hafa hins vegar sagt Trump gera stöðuna enn erfiðari með ummælum sínum.
Gert er ráð fyrir að þingið komi aftur saman í hádeginu að Bandarískum tíma í dag og haldi fundum sínum áfram.
Her landsins, heilbrigðisstofnanir og stofnanir félagsmálaráðuneytisins eru að fullu fjármagnaðar þangað til í lok september á næsta ári.
Meðal starfsmanna sem ekki fá launagreiðslur vegna lokunarinnar eru starfsmenn þjóðgarða og geimferðastofnunar NASA.