Hluta alríkisstofnana Bandaríkjanna lokað

Á miðnætti lokaði hluti af alríkisstofnunum Bandaríkjanna þar sem ekki …
Á miðnætti lokaði hluti af alríkisstofnunum Bandaríkjanna þar sem ekki náðist sátt um fjárlög vegna um fjórðungs útgjalda alríkisins. AFP

Hluti rík­is­stofn­ana Banda­ríkj­anna lokaði í gær eft­ir að þingið frestaði fundi sín­um án þess að ná sam­komu­lagi um fjár­lög. Frá og með miðnætti að banda­rísk­um tíma er því ekki samþykki fyr­ir um fjórðungi af út­gjöld­um al­rík­is­ins, en þar á meðal eru út­gjöld vegna heima­varn­ar­ráðuneyt­is­ins og stofn­ana á sviði sam­göngu,- land­búnaðar-, ut­an­rík­is- og dóms­mála.

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti hef­ur kraf­ist þess að þingið samþykki alla­vega 5 millj­arða Banda­ríkja­dali í bygg­ingu veggs á milli Mexí­kó og Banda­ríkj­anna, en vegg­ur­inn var eitt helsta kosn­ingalof­orð hans og á að hans sögn að auka ör­yggi lands­ins og draga úr komu ólög­legra inn­flytj­enda sem koma frá Mexí­kó.

Demó­krat­ar, sem nú hafa meiri­hluta í neðri deild þings­ins, eru mót­falln­ir þeim fjár­út­lát­um og kem­ur þessi pattstaða í veg fyr­ir að hægt sé að af­greiða frum­varpið.

Þetta er þriðja lok­un hluta al­rík­is­ins á þessu ári og þýðir það að starfs­menn þurfa annað hvort að vinna án launa eða fara í tíma­bundið leyfi.

For­set­inn hef­ur skellt skuld­inni af lok­un­inni á Demó­krata og að þeir þyrftu að finna lausn á mál­inu. Demó­krat­ar hafa hins veg­ar sagt Trump gera stöðuna enn erfiðari með um­mæl­um sín­um.

Gert er ráð fyr­ir að þingið komi aft­ur sam­an í há­deg­inu að Banda­rísk­um tíma í dag og haldi fund­um sín­um áfram.

Her lands­ins, heil­brigðis­stofn­an­ir og stofn­an­ir fé­lags­málaráðuneyt­is­ins eru að fullu fjár­magnaðar þangað til í lok sept­em­ber á næsta ári.

Meðal starfs­manna sem ekki fá launa­greiðslur vegna lok­un­ar­inn­ar eru starfs­menn þjóðgarða og geim­ferðastofn­un­ar NASA.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert