Árásarmaðurinn sem skaut fimm manns til bana á jólamarkaði í Strassborg um miðjan mánuðinn lýsti yfir stuðningi við Ríki íslams í myndskeiði áður en hann framdi árásina.
Myndskeiðið fannst á USB-lykli sem var í eigu Chekatt. Hann var felldur af lögreglu tveimur dögum eftir árásina en hann hafði þá verið á flótta frá því hann framdi ódæðisverkið.
Liðsmenn Ríkis íslams lýstu því yfir eftir árásina að Chekatt væri „einn af hermönnum þeirra“ en Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, lýsti yfir efasemdum þess efnis.
Chekatt, sem var 29 ára, hafði ítrekað verið dæmdur fyrir glæpi og segja fjölmiðlar að hann hafi öfgavæðst innan veggja fangelsisins. Fimm létust í árásinni og ellefu særðust.