Fjöldi fólks í Marokkó kom saman í dag til að syrgja skandinavísku vinkonurnar Maren Ueland og Louisa Vesterager Jespersen. Þær voru myrtar í Marokkó en lík þeirra fundust á mánudag.
Talið er að mörg hundruð manns hafi vottað Ueland og Jespersen virðingu sínu fyrir utan sendiráð Noregs og Danmerkur í höfuðborg Marokkó, Rabat.
Á skiltum sem fólk hafði meðferðis stóð meðal annars „Hvílið í friði Maren og Louisa“ og „hryðjverk tengjast ekki trú eða þjóðerni“ og „fyrirgefið.“
Einnar mínútu þögn var haldin í viðurvist diplómata frá Danmörku og Noregi.
Einnig kom stór hópur saman í ferðamannabænum Imlil en konurnar fundust látnar í þorpi í Atlasfjöllunum í El Haouz-héraði, skammt frá bænum. Auk þess var kveikt á kertum til minningar um konurnar í Marrakesh.
Alls eru 13 í haldi í tengslum við morðin en yfirvöld hafa lýst þeim sem hryðjuverkum. Sendiherrar Noregs og Danmerkur í Marakkó hafa þakkað almenningi og yfirvöldum í landinu fyrir stuðninginn og samúðina.