Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur óskað leyfis frá ríkisstjórn sinni til þess að reka Jerome Powell, seðlabankastjóra, eftir að stýrivextir voru hækkaðir á miðvikudag í síðustu viku.
Trump er í fréttum CNN og Bloomberg sagður hafa orðið ævareiður þegar ákvörðunin var tekin, en Powell gaf það til kynna að vextir gætu hækkað tvisvar sinnum til viðbótar árið 2019.
Steven Mnuchin, fjármálaráðherra, er sagður hafa lagst gegn því að Powell yrði rekinn. Í færslu Trump á Twitter kveðst hann aldrei hafa haft í hyggju að reka Powell.
„Ég lagði aldrei til að Jay Powell, seðlabankastjóri, yrði rekinn. Ég trúi því heldur ekki að ég hafi rétt til að gera það,“ skrifaði Trump.
Að því er fram kemur í frétt AFP um málið yrði brottrekstur Powell árás á sjálfstæði Seðlabanka Bandaríkjanna og myndi þar að auki valda miklum usla á verðbréfamörkuðum vestanhafs.
Powell var skipaður af Trump og tók við starfinu til fjögurra ára í febrúar á þessu ári sem eftirmaður Janet Yellen. Á þriðjudag varaði Trump peningastefnunefndina við því að gera ekki „enn önnur mistök“ með því að hækka stýrivexti. Hefur hann farið gegn þeirri áralöngu hefð að forsetinn virði ákvarðanir sem þessar, en Trump hefur meðal annars kallað stjórnvaldið „klikkað“, „stjórnlaust“ og sagt að af Seðlabankanum steðji meiri efnahagleg ógn heldur en af Kína.