Rússar með ný hljóðfrá kjarnorkuflugskeyti

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir nýja Avangard kerfið geta eytt skotmörkum …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir nýja Avangard kerfið geta eytt skotmörkum nær hvar sem er í heiminum. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti greindi í dag frá því að Rússar yrðu strax á næsta ári tilbúnir með ný hljóðfrá kjarnorkuflugskeyti. Sagði Pútín að með nýja vopnakerfinu sem ber nafnið Avangard, muni Rússar hafa nýja tegund hernaðarvopna, að því er Reuters fréttastofan greinir frá.

„Prófanirnar, en þeim var að ljúka, tókust fullkomlega,“ sagði Pútin á ríkisstjórnarfundi, eftir að hafa fylgst sjálfur með útsendingu á prófununum. „Frá og með næsta ári mun rússneski herinn hafa nýtt kerfi langdrægra eldflauga, Avangard ...þetta er stór stund hjá hernum og þjóðinni. Rússland hefur eignast nýja gerð hernaðarvopna.“

Avangard eldflaugakerfið er meðal annarra nýrra vopna sem Pútín kynnti fyrst í mars á þessu ári að væru væntanleg og sagði hann við það tækifæri að kerfið gæti gert eldflaugum kleift að eyða skotmarki sínu næstum hvar sem er í heimunum og komast undan eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna.

Hefur Reuters eftir rússneskum varnarmálayfirvöldum að nýju eldflauginni hafi verið skotið á loft frá suðvesturhluta Rússlands og að hún hafi náð að eyða skotmarki í austurhluta Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert