Donald Trump Bandaríkjaforseti notaði óvænta heimsókn sína til bandarískra hersveita í Írak í gær til að verja þá ákvörðun sína að kalla hersveitir heim frá Sýrlandi og til að binda enda á hlutverk Bandaríkjanna sem „löggu“ heimsins.
Trump, sem kom til Íraks með eiginkonu sinni Melaniu, ræddi við hóp um 100 sérsveitarmanna og svo átti hann aðskildan fund með yfirmönnum í Al-Asad-herstöðinni. Fyrirhuguðum fundi við Adel Abdel Mahdi, forsætisráðherra Írak, var hins vegar aflýst og ræddust þeir þess í stað við í síma. Segir Sarah Sanders, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, Trump þá hafa boðið Abdel Mahdi í heimsókn til Washington og þáði forsætisráðherrann það boð.
BBC segir Trump hafa sagt hermönnunum sem á hann hlýddu að Bandaríkin væru ekki lengur ginningarfífl. „Við njótum nú virðingar á ný sem þjóð,“ sagði forsetinn.
AFP-fréttaveitan segir Trump þá hafa notað Íraksheimsóknina til að verja „Bandaríkin fyrst“ stefnu sína og að draga úr þáttöku í hernaðaraðgerðum í Mið-Austurlöndum vegna átaka sem margir Bandaríkjamenn telji engan enda taka. „Þetta er ekki sanngjörð byrði fyrir okkur,“ sagði Trump. „Við viljum ekki láta önnur ríki nota okkur og okkar frábæra her til að verja þau. Þau borga ekki fyrir það eins og þau þurfa að gera.“
Sagði Trump Bandaríkjaher vera of dreifðan um heiminn. „Við erum í löndum sem flest fólk hefur ekki einu sinni heyrt minnst á. Þetta er fáránlegt, satt best að segja“
Þá sagði forsetinn við fréttamenn að heimsókn sinni í herstöðina lokinni að hann hefði hafnað beiðni herforingja um að framlengja viðveru Bandaríkjahers í Sýrlandi og aðstoða með því heimamenn í baráttunni gegn vígasamtökum Ríkis íslams. „Þið fáið ekki meiri tíma. Þið hafið fengið nóg,“ kvaðst Trump hafa sagt við herforingjana.