Aldrei fleiri skotnir til bana í Svíþjóð

Sænska lögreglan við eftirlit. Mynd úr safni.
Sænska lögreglan við eftirlit. Mynd úr safni. AFP

Aldrei hafa fleiri verið drepnir með skotvopnum í Svíþjóð en á þessu ári, 44 hafa látist af völdum skotvopna það sem af er árinu. Er það verulega mikil aukning  á sjö ára tímabili að því er sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá.

Þróunin er sögð hafa verið upp á við frá árinu 2011 er BRÅ, sérstakt forvarnaráð gegn glæpum, tók að skrá sérstaklega ástæður dauðsfalla. Það ár létust 17 af völdum skotvopna, en í ár voru þeir líkt og áður sagði 44 sem samsvarar 159% aukningu á þessu sjö ára tímabili. Sé eingöngu horft til ársins 2018 og ársins þar á undan nemur fjölgunin 10%.

Sú breyting hefur hins vegar orðið á þróuninni að sögn lögreglu að fleiri slíkir atburðir eiga sér nú stað í minni byggðum en áður, m.a. í Uppsölum og Eskilstuna.

„Þetta hefur verið virkilega erfitt ár hvað varðar fjölda skotárása og morða á stuttum tíma,“ hefur SVT eftir Gunnar Appelgren, sérfræðingi hjá lögreglunni í Stokkhólmi í málefnum glæpagengja.

Þó að dauðsföllum af völdum skotvopna hafi fjölgað þá hefur skotárásum fækkað og var tilkynnt um 300 slíkar í Svíþjóð á síðasta ári. Lögreglan hefur þá einnig lagt meiri áherslu á baráttuna gegn skotvopnum sl. ár og hefur til að mynda lagt hald á 800 skotvopn það sem af er ári og þá hafa 299 einstaklingar verið handteknir vegna gruns um gróf eða alvarleg brot á vopnalögum. Árið 2017 voru 58 handteknir vegna sambærilegra brota.

Sænska lögreglan telur þessar breyttu áherslur m.a. hafa leitt til þess að það tókst að kæfa deilur milli tveggja glæpagengja í Rinkeby.

Appelgren segir þó langt í land enn þar til ljóst verði hvort takist hafi að snúa þróuninni við. „Það er of snemmt að fagna,“ segir hann. „Það verður fyrst eftir 3-5 ár sem það kemur í ljós hvort takist hafi að sigrast á þessari þróun.“

Sænska Metro blaðið segir sænsk ungmenni á aldrinum 15-29 ára vera þann hóp sem hvað líklegastur er til að verða fyrir skotárás, samkvæmt rannsókn sem gerð var í 13 Evrópuríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert