Táragasi beitt gegn gulum vestum

Lögreglumenn og mótmælendur í gulum vestum í París í dag.
Lögreglumenn og mótmælendur í gulum vestum í París í dag. AFP

Franska lögreglan beitti táragasi á hóp mótmælenda sem komu saman í miðborg Parísar í dag. Þetta er sjöunda helgin í röð þar sem mótmælendur íklæddir gulum vestum koma saman. Hins vegar var þátttakan að þessu sinni heldur dræm að sögn AFP-fréttastofunnar.

Nokkur hundruð manns komu saman skammt frá höfuðstöðvum franska ríkissjónvarpsins og sjónvarpsstöðvarinnar BFM TV í miðborginni. Hópurinn hrópaði „falsfréttir“ og krafðist afsagnar Emmanuels Macron, forseta Frakklands. 

Margir héldu á franska fánanum.
Margir héldu á franska fánanum. AFP

Mótmælendur stóðu stóðu m.a. á teinum fyrir sporvagna í borginni og köstuðu ýmsu lauslegu í lögreglumenn sem svöruðu með því að beita táragasi. Sjö voru handteknir. 

Lögreglan í borginni Nantes beitti einnig táragasi í samskiptum sínum við mótmælendur. Þá stóð til að mótmæli færu einnig fram í borgunum Lyon, Bordeaux ogToulouse.

Mótmælendur eru á öllum aldri.
Mótmælendur eru á öllum aldri. AFP

Í Marseille við suðurströnd landsins, komu um 900 mótmælendur saman að sögn lögreglu. Þar var þess einnig krafist að Macron myndi víkja úr embætti. 

Þátttaka í mótmælum gulu vestanna hefur dregist saman undanfarnar vikur. Að sögn yfirvalda komu um 38.600 mótmælendur saman laugardaginn 22. desember, en þeir voru 282.000 í fyrstu stóru mótmælunum sem fóru fram 17. nóvember. 

Skipuleggjendur mótmælanna benda á að jólahátíðin hafi sitt að segja varðandi fjölda þátttakenda. Þeir segja enn fremur að mótmælin hafi teygt sig víða og tengist ekki einvörðungu verkalýðsfélögum og stjórnmálasamtökum. Þá búast þeir enn fremur við að mótmælendur muni sækja í sig veðrið á nýju ári.

Þetta er sjöundi laugardagurinn í röð sem mótmælendur koma saman …
Þetta er sjöundi laugardagurinn í röð sem mótmælendur koma saman til að mótmæla. AFP

Upphaflega snerust mótmælin um reiði almennings gangvart fyrirætlunum stjórnvalda að hækka skatta á eldsneyti. Nú snúast þau um fleiri mál, ekki síst reiði út í sjálfan forsetann sem er sakaður um að hunsa þá staðreynd að íbúar í smábæjum og í dreifðari byggðum Frakklands standi frammi fyrir síversnandi kaupmætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert