Refur beit 10 mánaða barn

Rauðrefur, Vulpes vulpes á latínu, eins og sá sem klifraði …
Rauðrefur, Vulpes vulpes á latínu, eins og sá sem klifraði upp í barnavagn í Alta í gær og beit Sander litla, tíu mánaða gamlan, í andlitið. Óvíst er hver málalok hefðu orðið hefði barnið ekki haft babycaller-talstöð í vagninum hjá sér.

„Skottið eitt stóð út úr barnavagninum, hann stóð yfir barninu,“ segir Erik Jakobsen, aðgerðastjóri lögreglunnar í Finnmörku, nyrsta fylki Noregs, um óhugnanlega lífsreynslu Angell-fjölskyldunnar um miðjan dag í gær þegar sýktur refur, líklegast hvort tveggja með hundaæði og kláðamaur, komst hálfur inn í barnavagn utan við hús fjölskyldunnar og beit hinn tíu mánaða gamla Sander í andlitið.

Það er vefmiðillinn iFinnmark sem ræðir við Jakobsen en norskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um málið í dag. Ekki er ljóst hver málalok hefðu orðið hefði barnið ekki verið með svokallaða barnapíu (e. babycaller) hjá sér í vagninum en athygli foreldranna var vakin þegar torkennileg krafshljóð tóku að berast frá móttökutækinu þeirra megin.

Bjørn Milliam Angell, fjölskyldufaðirinn, æddi út og mátti hafa töluvert fyrir því að reka dýrið burtu, sem var lítt við alþýðuskap og sýndi mikla árásargirni, en ljóst var að refurinn var ekki heill heilsu, feldinn vantaði að miklu leyti á hann og hluta af skottinu. Örþrifaráð húsbóndans var að lokum að grýta blómapotti í haus refsins sem þá sá sína sæng upp reidda og forðaði sér.

Hefði getað drepið barnið

Dýrafræðingurinn Petter Bøckman segir þessa háttsemi refsins mjög óvenjulega og telur öll einkenni benda til hvort tveggja hundaæðis og kláðamaurs í dýrinu. Þá hefði hann getað orðið barninu að bana sagði Bøckman í samtali við vefsíðu norska ríkisútvarpsins NRK í dag en hann var auk þess einnig gestur í myndveri í aðalfréttatíma sjónvarpsins nú í kvöld.

Bøckman sagði refi geta drepið hvort tveggja lömb og hænur. „Ungbarn er í þeim sama stærðarflokki. Hefði hann fengið að athafna sig óáreittur hefði hann getað drepið barnið,“ sagði Bøckman.

Hundaæði í refum hefur ekki fundist í Noregi í háa herrans tíð og er það kenning dýrafræðingsins að um flæking frá Rússlandi sé að ræða en Finnmörk á landamæri við Rússland.

Bjørn Tore Syversen hjá lögreglunni í Finnmörku segir málið fordæmalaust, hann hafi aldrei heyrt um atvik á borð við þetta í sínu umdæmi. „Fólk er beðið að láta börn sín ekki liggja úti í barnavögnum á þessu svæði,“ segir Syversen en veiðimenn frá eftirlitsnefnd villtra dýra (n. viltnemda) reyna nú að rekja slóð refsins árásarhneigða svo fella megi hann áður en verra hlýst af.  

Fréttir annarra norskra fjölmiðla en þegar hefur verið vísað í:

Frá Dagbladet

Frá TV2

Frá Nettavisen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert