Rannsókn hafin á lestarslysinu á Stórabeltisbrú

AFP

„Við höfum hafið rannsókn á því hvað gerðist hérna. Nú söfnum við gögnum og upplýsingum til að reyna að útskýra hvað átti sér stað,“ sagði Bo Haaning, aðstoðaryfirmaður hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa í Danmörku (d. Havarikommissionen), í samtali við danska ríkisútvarpið.

Fjölmiðlar í Danmörku greina nú margir frá því að tómur tengivagn flutningalestar sem mætti farþegalestinni hafi fokið af teinunum og lent framan á farþegalestinni með þeim afleiðingum að að sex létu lífið og 16 slösuðust, þó ekki alvarlega.

Slysið varð klukkan 7:35 að staðartíma í morgun á Stórabeltisbrúnni sem tengir Sjáland og Fjón. 131 farþegi var í lestinni og þrír starfsmenn.

AFP

Áður hafði verið talið að yfirbreiðsla eða hluti þaks eða hliða úr flutningalestinni hefðu lent á farþegalestinni en nú er talið að um heilan lestarvagn hafi verið að ræða.

„Það var tómur lestarvagn sem var ekki fastur við flutningalestina. Hann hefur annaðhvort lent á lestinni eða lestin hefur keyrt á hann. Við erum byrjaðir að safna gögnum en erum enn á frumstigi,“ bætti Haaning við. Hann sagði þó ekki öruggt að tómi lestarvagninn hafi valdið slysinu eða hvort aðrir þættir spiluðu inn í.

Brúnni var lokað í nótt vegna veðurs en stormurinn Alfrida gengur þessa stundina yfir Danmörku og Svíþjóð. Nýlega var búið að opna Stórabeltisbrúna á ný þegar slysið átti sér stað.

AFP

Þrátt fyrir mikinn vind í morgun þá voru ekki mistök að opna fyrir umferð á Stórabeltisbrúnni í morgun, segir Kim Agersø Nielsen, forstöðumaður tæknideildar hjá eignarhaldsfélaginu Sund & Bælt sem rekur og á nokkrar brýr í Danmörku og Svíþjóð.

„Það voru engar takmarkanir á akstri vegna veðurs,“ sagði Nielsen við DR. Hann bætti því við að vindurinn hefði verið minni en 21 m/s á brúnni.

„Ef vindurinn hefði verið meiri en 21 m/s þá hefði verið dregið úr hámarkshraða lestarinnar niður í 80 km/klst. Ef vindurinn hefði náð yfir 25 m/s þá hefði lestin ekki fengið að fara yfir brúnna. En það var ekki þannig í þessu tilfelli,“ bætti Nielsen við.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert