Búið er að bera kennsl á þá átta sem fórust í lestarslysinu á Stórabeltisbrúnni á miðvikudag. Fimm konur og þrír karlar létust og voru þau á aldrinum 27 til 60 ára. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Fjóni.
Slysið varð klukkan 7:35 að staðartíma á miðvikudag á Stórabeltisbrúnni sem tengir Sjáland og Fjón. Mikið óveður gekk yfir svæðið þegar slysið átti sér stað og varð það með þeim hætti að tómur tengivagn flutningalestar sem mætti farþegalest fauk af teinunum og lenti framan á farþegalestinni.
Flutningalestin var að flytja bjór fyrir Carlsberg-ölgerðina og hefur fyrirtækið DB Cargo, sem annast vöruflutninga með lestum, tilkynnt að það ætli að hætta að flytja bjór yfir Stórabeltisbrúna í kjölfar slyssins, en bjórlestin frá fyrirtækinu átti þátt í slysinu.
131 farþegi var í farþegalestinni og þrír starfsmenn. Hinir látnu voru allir farþegar í lestinni en auk þeirra átta sem fórust slösuðust sextán í slysinu.