Blað var brotið í sögu bandarískra stjórnmála og raunar í jafnréttissögu heimsins í gær þegar fulltrúadeild Bandaríkjaþings var sett í 116. sinn. Af þeim 435 þingmönnum sem nú eiga sæti í deildinni eru 102 konur. Það eru 23,4% þingmanna, sem er hæsta hlutfall kvenna sem þar hefur setið.
Í hópi þessara rúmlega hundrað kvenna eru m.a. fyrstu konurnar á Bandaríkjaþingi sem eru íslamstrúar, a.m.k. svo vitað sé opinberlega og tvær kvennanna rekja ættir sínar til frumbyggja Ameríku.
Þrettán af þessum 102 þingkonum eru repúblikanar og 89 eru demókratar. 35 þingkvennanna voru kosnar í miðkjörtímabils-kosningunum svonefndu, sem á ensku kallast midterm og voru í nóvember á síðasta ári. Þar fengu demókratar meirihluta og eru með 235 þingsæti. Repúblikanar eru með 199 sæti og eitt sæti er autt. Það tilheyrir repúblikananum Mark Harris, verið er að rannsaka ásakanir á hendur honum um kosningasvindl og tók Harris því ekki sæti sitt í gær.
Sjá umfjöllun um breytingarnar á Bandaríkjaþingi í heild í Morgunblaðinu í dag.