Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að ávarpa bandarísku þjóðina á morgun vegna hugmynda hans um að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Trump hefur staðið í átökum við demókrata um fjármögnun verkefnisins en demókratar ráða nú ríkjum í neðri deild þingsins.
Í tísti frá Trump sagði hann að ræðan færi fram annað kvöld og fjallaði um „mannúðlega og þjóðaröryggislega krísu á landamærum landsins til suðurs. Síðar í vikunni fer Trump að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til þess að fylgja hugmyndum sínum um byggingu múrsins eftir.
Trump hefur lagt mikla áherslu á múrinn í aðdraganda síðustu forsetakosninga og eftir að hann tók við embætti. Hann segir landamærin jafngilda opnu hliði fyrir glæpamenn, þar á meðal nauðgara, hryðjuverkamenn og falska hælisleitendur.
Stuðningsmenn Trumps styðja hugmyndina en demókratar segja Trump ofgera landamæravandanum, hann sé eingöngu að slá pólitískar keilur og verkefnið sé ekki verðugt fyrir skattfé Bandaríkjamanna.