Bandaríkin munu vinna með bandamönnum sínum að því að koma hverjum einasta íranska hermanni burt frá Sýrlandi. Þetta sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fréttamannafundi í Karíó í Egyptalandi í dag.
Varaði Pompeo við því að Bandaríkin muni ekki veita neina aðstoð til uppbyggingar á þeim svæðum sem nú eru undir stjórn Bashar al-Assads Sýrlandsforseta fyrr en Íranar og allir bandamenn þeirra væru farnir af landi brott.
Stjórnvöld í Íran hafa, ásamt rússneskum stjórnvöldum, verið meðal helstu bandamanna Sýrlandssstjórnar í Sýrlandsstríðinu og hafa m.a. séð þeim fyrir vopnum, hernaðarráðgjöf og hersveitum. Bandaríkin eru hins vegar mjög tortryggin í garð aðgerða Írans í Mið-Austurlöndum og telja þarlend yfirvöld geta dregið úr núverandi valdajafnvægi á svæðinu.
Pompeo gagnrýndi einnig stefnu Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í málefnum Mið-Austurlanda og sagði hann hafa gerst sekan um „alvarlegt vanmat“.
Pompeo hefur, að því er BBC greinir frá, undanfarið leitast við að fullvissa bandamenn Bandaríkjanna um áframhaldandi stuðning bandarískra stjórnvalda, en fullyrðing Donald Trumps Bandaríkjaforseta skömmu fyrir jól um að hann ætlaði að kalla bandaríska herinn heim frá Sýrlandi kallaði á mikla gagnrýni bæði innan Bandaríkjanna og utan.
„Bandaríkin munu ekki hörfa þar til baráttunni gegn hryðjuverkum er lokið,“ sagði Pompeo. „Við munum án þess að unna okkur hvíldar vinna samhliða ykkur að því að sigrast á Ríki íslams, al-Quaeda og öðrum vígasamtökum sem ógna okkar öryggi og ykkar.“
Því næst bætti hann við að Bandaríkin væru „afl hins góða“ í Mið-Austurlöndum og sagði að þegar þau hörfuðu fylgdi „ringulreið“ í kjölfarið.