Varðstjóri í lögreglunni í Oppland-fylki, norður af Ósló, hefur verið leystur frá störfum og auk þess ákærður fyrir fjölbreytilegustu brot í opinberu starfi í máli sem kom til kasta rannsóknardeildar í innri málefnum lögreglunnar (n. spesialenheten for politisaker) þegar í apríl 2017.
Manninum, sem er á sextugsaldri, er gefið að sök að hafa notfært sér yfirburðastöðu sína gagnvart uppljóstrara (n. informant) til að þiggja af honum kynferðislega greiðasemi, reynt að hafa áhrif á framburð vitna, stolið fíkniefnum úr haldlagningargeymslu lögreglunnar og selt neytendum þau, haft í fórum sínum umtalsvert magn lyfseðilsskyldra lyfja án þess að geta sýnt fram á lyfseðil fyrir þeim og að lokum brot á reglum um meðferð skotvopna. Áður hafði maðurinn verið ákærður fyrir glæfraakstur ómerktrar lögreglubifreiðar og hlaut dóm fyrir þá háttsemi 2017 og var þá gert að inna af hendi samfélagsþjónustu.
Varðstjórinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald 21. febrúar í fyrra eftir að fíkniefnamálið kom upp en áður hafði hann verið leystur tímabundið frá störfum, frá því í júlí 2017. Johan Brekke, lögreglustjóri Innlandet-umdæmisins, sem tekur yfir fylkin Hedmark og Oppland, segir norska ríkisútvarpinu NRK að hann vilji sem minnst tjá sig um málið sem eðlilega er hið vandræðalegasta fyrir embættið. „Helst af öllu kýs maður nú að standa utan við svona mál, en þegar þau koma upp er nauðsynlegt að taka á þeim af alvöru og fylgja þeim eftir og mín tilfinning er að við höfum gert það,“ segir Brekke.
Verjandi varðstjórans, Bernt Heiberg, segist ekki telja skilyrði brottvikningar skjólstæðings hans uppfyllt. „Skjólstæðingur minn telur sig ekki hafa framið þau brot sem ákæran tiltekur. Þegar brottvikning er að mestu byggð á þeirri háttsemi sem ákært er fyrir má leiða líkur að því að grundvöllur brottvikningar er ekki fyrir hendi,“ segir Heiberg sem mun bera hönd fyrir höfuð skjólstæðings síns í réttarhöldunum sem hefjast við Héraðsdóminn í Gjøvik í mars.
Aðrar fréttir norskra miðla af málinu en sú sem þegar er vitnað til: