Engin lausn í sjónmáli

Deilan um múrinn hefur leitt til þess að um 800.000 …
Deilan um múrinn hefur leitt til þess að um 800.000 ríkisstarfsmenn fá ekki greidd laun. AFP

Bandarískar ríkisstofnanir hafa aldrei verið lokaðar jafn lengi og nú, eða í um þrjár vikur. Enginn lausn virðist vera í sjónmáli. Í dag hafa stofnanirnar verið lokaðar í 22 daga og er þar með orðin einum degi lengur en gerðist í forsetatíð Bills Clintons um áramótin 1995 og 1996. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur neitað að skrifa undir fjárlög ársins nema þar verði sett sérstakt fjármagn til að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna að Mexíkó.

Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa hins vegar hafnað beiðni forsetans, en múrinn er sagður kosta um 5,7 milljarða dala, sem samsvarar um 680 milljörðum íslenskra króna. 

Um fjórðungur bandarískra ríkisstofnana eru enn lamaðar, eða þar til fjárlög hafa verið afgreidd. Það þýðir að um 800.000 ríkisstarfsmenn hafa ekki fengið greidd laun. 

Trump segir að það sé auðveld leið út úr þessu …
Trump segir að það sé auðveld leið út úr þessu með því að lýsa einfaldlega yfir neyðarástandi í landinu, en hann vill þó fremur að þingið finni lausn á vandanum. AFP

Fram kemur á vef BBC, að þeir hafi ekki fengið laun í gær. En meðal annars er um að ræða fangaverði, starfsmenn flugvalla og starfsmenn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.

Trump hefur gert lítið úr þeim vangaveltum að hann ætli sér að lýsa yfir neyðarástandi á landsvísu svo hann geti komist fram hjá Bandaríkjaþingi og fengið það fé sem hann þarf til að reisa múrinn umdeilda, sem var eitt af helstu kosningaloforðum hans. 

Hann sagði að yfirlýsing um neyðarástand væri „auðveld leið út úr þessu“ en bætti við að hann vildi fremur að þingið myndi finna lausn á vandamálinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert