Qunun komin til Kanada

Rahaf Mohammed al-Qunun brosti við komuna til Toronto í dag.
Rahaf Mohammed al-Qunun brosti við komuna til Toronto í dag. AFP

Rahaf Mohammed al-Qun­un, 18 ára hæl­is­leit­andi frá Sádi-Ar­ab­íu, er komin til Kanada. Stjórnvöld þar í landi veittu henni hæli í gær.

Qun­un var stöðvuð á flug­vell­in­um í Bang­kok síðustu helgi þar sem hún flúði fjölskyldu sína og ætlaði að reyna að komast til Ástralíu. Hún seg­ist vera í lífs­hættu á heim­ili sínu og þar sé hún beitt and­legu og lík­am­legu of­beldi. 

Í fyrstu ætluðu taí­lensk yf­ir­völd að vísa henni úr landi og senda til fjöl­skyld­unn­ar að nýju en vegna um­fjöll­un­ar, fyrst á sam­fé­lags­miðlum og svo fjöl­miðlum, var hætt við það á mánu­dags­morg­un. Qun­un hef­ur, vopnuð snjallsíma og myllu­merki, leyft heim­in­um að fylgj­ast stöðugt með máli sínu og þurfti hún fljótlega að loka Twitter-aðgangi sín­um vegna líf­láts­hót­ana.

Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada, tók á móti Qunun við komuna til landsins og lýsti henni sem „mjög hugrökkum nýjum Kanadamanni“. Qunun var þreytt eftir ferðalagið og kaus að ávarpa ekki fjölmiðla að þessu sinni. Qunun flaug frá Bangkok til Seoul og þaðan til Pearson-flugvallarins í Toronto. 

„Hún er mjög hugrökk ung kona sem hefur gengið í gegnum margt. Hún ætlar núna að fara á sitt nýja heimili,“ bætti Freeland við. Stjórnvöld í Kanada voru fljót að bregðast við beiðni Qunun um hæli og sagði Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, að sjálfsagt væri að verða við beiðni Sameinuðu þjóðanna um að veita Qunun hæli.

„Kan­ada hef­ur verið skýrt í af­stöðu sinni um að berj­ast fyr­ir mann­rétt­ind­um og rétt­ind­um kvenna um heim all­an,“ sagði Trudeau meðal annars.

Qun­un seg­ir að hún hafi verið beitt and­legu sem og lík­am­legu of­beldi af hálfu fjöl­skyldu sinn­ar en mann­rétt­inda­sam­tök segja að hún hafi af­neitað íslam sem geti þýtt að hún verði sótt til saka í Sádi-Ar­ab­íu.

Rahaf Mohammed al-Qunun var boðin velkomin af utanríkisráðherra Kanada, Chrystia …
Rahaf Mohammed al-Qunun var boðin velkomin af utanríkisráðherra Kanada, Chrystia Freeland. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert