Í mat hjá dóttur „Skepnunnar“

„Uppgötvið alvöru ítalsk/sikileyska matargerð á notalegum og heillandi stað,“ segir á Snjáldrusíðu veitingahúss sem nýlega tók til starfa í hjarta Parísar, nærri Sigurboganum. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi bæri staðurinn ekki nafnið Corleone og væri í eigu dóttur hins alræmda mafíuforingja Salvatore „Totò“ Riina. Corleone er heimabær Riina-fjölskyldunnar á Sikiley en nafnið vísar um leið í frægustu mafíufjölskyldu allra tíma sem gerð var ódauðleg í skáldsögu Marios Puzos og kvikmyndum Francis Fords Coppolas um Guðföðurinn.

Til að taka af öll tvímæli um tenginguna er fullt nafn staðarins Corleone hjá Lucia Riina en það er yngsta dóttir mafíuforingjans en hann lést í fangelsi árið 2017, 87 ára að aldri. „Nýtt líf,“ sagði hún þegar hún birti fyrst ljósmynd af staðnum á samfélagsmiðlum sínum.

Salvatore Riina.
Salvatore Riina.

Með öllu óásættanlegt

Ekki er öllum skemmt yfir uppátækinu. „Þetta er með öllu óásættanlegt,“ sagði Nicolò Nicolosi, bæjarstjóri Corleone, við breska blaðið The Guardian. „Það getur ekki verið rétt að liðsmenn fjölskyldu sem hefur dregið ímynd bæjarins okkar í svaðið og myrt tugi íbúa Corleone og Sikileyjar almennt geti notað nafn bæjarins í fjárhagsskyni og til að græða peninga.“

Lucia Riina er 39 ára og hefur fengist við listmálun. Hún hefur ekki viljað tjá sig opinberlega um veitingastaðinn og þegar eftir því hefur verið leitað biður hún fólk að „hafa aðgát“ og „virða friðhelgi“. Blaðamaður ítölsku fréttaveitunnar Ansa tók upp símann og hringdi í veitingastaðinn en fékk þau svör hjá starfsmanni að hvorki Lucia Riina né eiginmaður hennar, Vincenzo Bellomo, væru til viðtals. Fullyrti starfsmaðurinn raunar að staðurinn væri í eigu tveggja franskra ríkisborgara.

Bellomo sætti sjálfur rannsókn um árið eftir að nafn hans, ellegar alnafna hans, fannst á minnisblaði mafíunnar, svokölluðu „pizzino“ sem samtökin nota til að koma skilaboðum og fyrirmælum milli manna. Ekkert kom út úr þeirri rannsókn.

Synjað um barnabætur

Hjónin, sem bæði eru frá Corleone, fluttu þaðan eftir að dóttir þeirra fæddist árið 2017. Kornið sem fyllti mælinn mun hafa verið að þeim var synjað um barnabætur, bæði af bæjaryfirvöldum í Corleone og ítalska ríkinu. „Ég mun biðja forseta Ítalíu um að afturkalla ríkisborgararétt okkar og dóttur okkar,“ skrifaði hún af því tilefni á Snjáldru, „svo heimurinn geti glöggvað sig á því hvernig stjórnvöld og fjölmiðlar á Ítalíu fara með börnin sín vegna þess að þau eru ófríð, óhrein og illa innrætt.“

Áður hafði komið fram að Luciu liði illa í Corleone, þar sem hún væri „kúguð og útskúfuð“ og að fjölskyldunni gengi illa að hafa í sig og á. Fyrir liggur að yfirvöld hafa gert margar af eigum Riina-fjölskyldunnar upptækar og í eitt skipti óskaði tengdasonur Salvatores eftir ölmusu á netinu. Bar við sárri fátækt.

Veitingastaðurinn umdeildi.
Veitingastaðurinn umdeildi.

Reikningur frá skattinum

Ekki hefur það heldur kætt fjölskylduna að fá í vikunni reikning frá skattayfirvöldum á Sikiley fyrir kostnaði við það að halda gamla manninum í fangelsi í tæpan aldarfjórðung en hann hljóðar upp á 2 milljónir evra, andvirði 270 milljóna króna. Þeim gjörningi hefur raunar verið andmælt. „Lögin taka af öll tvímæli um það að fjölskylda fangans sé ekki ábyrg fyrir kostnaði við vist hans. Hér hljóta einhver mistök að hafa átt sér stað,“ sagði lögmaður fjölskyldunnar, Luca Cianferoni, við fjölmiðla í vikunni.

Salvatore Riina gekk ýmist undir nafninu „Skepnan“ eða „Stjóri stjóranna“ og deildi og drottnaði í undirheimum Sikileyjar á áttunda og níunda áratugi síðustu aldar. Hann sendi ekki aðeins aðra glæpamenn, sem ógnuðu veldi hans, á fund feðra sinna heldur ekki síður saksóknara, blaðamenn og dómara sem stóðu í vegi fyrir honum. Talið er að Riina hafi borið ábyrgð á dauða hundraða, karla og kvenna, og mestan óhug vakti morðið á þrettán ára gömlum dreng, sem var rænt, hann kyrktur og leystur upp í sýru.

26-faldur lífstíðardómur

Það var eftir að tveir saksóknarar, Giovanni Falcone og Paolo Borsellino, urðu sprengjum að bráð árið 1992 að þrengja fór að Riina enda almenningur á Sikiley löngu búinn að fá sig fullsaddan af ódæðisverkum foringjans og skósveina hans.

Riina var handtekinn árið 1993 eftir 23 ár á flótta og dæmdur til að afplána 26 lífstíðardóma. Dómurinn var óvenjulega strangur í ljósi þess að Riina þótti ekki sýna vott af iðrun fyrir dómi. Salvatore Riina sálaðist síðla árs 2017. Banamein hans var krabbamein.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert